Ráðast á heimili hælisleitenda

AFP

Tæplega 500 árásir hafa verið gerðar á heimili hælisleitenda í Þýskalandi það sem af eru þessu ári og eru þær þrefalt fleiri miðað við sama tíma í fyrra. Ríkisstjórn Þýskalands greinir frá þessu.

Thomas de Maizière, innanríkisráðherra landsins, segir að þetta sé til skammar. Hann segir ennfremur að heimamenn sem hafi ekki áður komist í kast við lögin, beri ábyrgð á tveimur af hverjum þremur árásum.

AFP

Ráðherrann segir að taka verði hart á þeim sem ráðist á hælisleitendur. Í einhverjum tilfellum hefur verið ráðist á tómar byggingar en einnig á gistiheimili þar sem hælisleitendur hafa fundið skjól. 

Maizière segir að þeir sem beri ábyrgð verði að skilja það að þeir eru að „fremja óviðandi brot; líkamsárásir, tilraunir til manndráps og íkveikju,“ sagði hann.

Fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins, að Þjóðverjar búist við að taka á móti að minnsta kosti 800.000 hælisleitendum á þessu ári. 

AFP

Stjórnmálaleiðtogar í Bæjaralandi hafa krafist þess að þýsk stjórnvöld setji þak á þann fjölda sem tekið verði á móti. Hægriflokkurinn CSU mótmælir stefnu Angelu Merkel Þýskalandskanslara, sem hafi opnað landamærin fyrir flóttafólki. 

Þýska þjóðin er klofin í afstöðu til stefnu kanslarans varðandi móttöku flóttafólks frá Sýrlandi, Írak og öðrum stríðshrjáðum svæðum. Stefnan nær ekki til þeirra sem eru að flýja fátækt frá öðrum löndum utan Evrópusambandsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert