Sameinast gegn hatursorðræðu á netinu

AFP

Dómsmálaráðherrar aðildarríkja Evrópusambandsins hittust á fundi í dag til þess að ræða sameiginlegar aðgerðir til þess að vinna gegn hatursorðræðu á netinu. Er sjónum einkum beint að hatursorðræðu sem beinist gegn flóttafólki sem leitar til Evrópu á flótta undan stríði. 

Í síðasta mánuði hét Facebook því að berjast gegn aukningu á kynþáttaníði og þýskumælandi Facebook síðum en ekkert land í Evrópu er jafn eftirsóttur áfangastaður og Þýskaland meðal flóttafólks. 

Dómsmálaráðherra Þýskalands segir að þar í landi hafi hatursummælum fjölgað verulega á samfélagsvefjum og að dómsmálaráðherrar ESB ríkjanna vinni að málinu með samfélagsmiðlum. Það er að reyna að útiloka rasista af slíkum miðlum,

„Ef einhver hvetur til þess að flóttamenn verði drepnir eða kveikt í gyðingum þá á ákvæði um málfrelsi ekki við. Þetta er glæpsamlegt athæfi sem á að lögsækja,“ segir Heiko Maas, dómsmálaráðherra Þýskalands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert