Samþykki meiri samruna eða hætti

Francois Hollande, forseti Frakklands.
Francois Hollande, forseti Frakklands. AFP

Francois Hollande, forseti Frakklands, var ómyrkur í máli þegar hann ræddi um stöðu Bretlands innan Evrópusambandsins í Evrópuþinginu á dögunum. Til snarpra orðaskipta kom á milli forsetans og Nigels Farage, leiðtoga Breska sjálfstæðisflokksins (UKIP), þar sem Hollande lét meðal annars þau orð falla að ef Bretar vildu ekki samþykkja frekari samruna á vettvangi sambandsins væri það eina raunhæfa í stöðunni að segja skilið við það.

Fram kemur í frétt breska dagblaðsins Daily Telegraph að til orðaskiptanna hafi komið eftir að Hollande fjallaði um fjölda nýrra stofnana sem ætlunin væri að koma á laggirnar á vegum Evrópusambandsins til þess að takast á við þá fjölmörgu erfiðleika sem sambandið á við að eiga. Þar á meðal sameiginlega varnarstefnu, sameiginlegt kerfi fyrir hælisleitendur og sameiginlega strandgæslu auk valdamikilla nýrra stofnana innan evrusvæðisins.

„Við höfum rætt þetta árum saman. Ef ekki er vilji til þess að styrkja Evrópusambandið í sessi þá er aðeins ein önnur leið. Ég heyrði það sem Farage sagði um að eina leiðin fyrir þá sem væru ekki sannfærðir um ágæti sambandsins væri að yfirgefa það. Það er engin önnur leið. Það er hörmuleg leið en það er engu að síður rökrétt leið. Yfirgefa Evrópusambandið, yfirgefa Schengen og yfirgefa lýðræðið. Spurningin erhvort raunverulegur vilji sé til þess að taka þátt í sameiginlegu ríki.“

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, hefur boðað þjóðaratkvæði um veru landsins í Evrópusambandinu fyrir árslok 2017. Hann hyggst semja um breytta stöðu Bretlands innan sambandsins áður en þjóðaratkvæðið fer fram og endurheimta ýmis völd sem framseld hafa verið til þess. Val Breta standi því á milli breyttrar veru í Evrópusambandinu eða að yfirgefa smabandið.

Nigel Farage, leiðtogi Breska sjálfstæðisflokksins (UKIP).
Nigel Farage, leiðtogi Breska sjálfstæðisflokksins (UKIP). AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert