Svíar taka við fyrsta hópnum

Erítreumennirnir kveðja á flugvellinum í Róm í morgun.
Erítreumennirnir kveðja á flugvellinum í Róm í morgun. AFP

Hópur nítján Erítreumanna er að leggja af stað frá Ítalíu til Norður-Svíþjóðar þar sem þeir fá hæli. Um er að ræða fyrstu flóttamennina úr hópi þeirra 40 þúsund flóttamanna sem Svíar hafa skuldbundið sig til að taka á móti af þeim hópi flóttamanna sem ríki ESB hafa samþykkt að veita hæli.

Hinn 20. júlí samþykkti Svíþjóð að taka á móti 821 flóttamanni frá Ítalíu og 548 frá Grikklandi á grundvelli mannúðar og fjárhagslegrar aðstoðar við þau tvö ríki sem taka á móti flestum flóttamönnum sem koma til Evrópu yfir Miðjarðarhafið.

Erítreumennirnir koma fljúgandi frá Róm til Luleå en þaðan verður farið með þá í skráningarmiðstöðina í Boden þar sem þeir sækja formlega um hæli í Svíþjóð. Þaðan fara þeir í miðstöð fyrir hælisleitendur í Östersund í Jämtland-héraði.

Morgan Johansson, ráðherra innflytjendamála, fagnar komu flóttamannanna og segir aðgerðir ESB lið í að tryggja velferð flóttafólksins. Með þessu sé Svíþjóð að taka þátt í að deila þeirri ábyrgð. Það sé mikilvægt að sýna að ríki sem hafa tekið á sig skuldbindingar standi við þær. Málefni flóttafólks voru helsta umræðuefni á ráðherrafundi í Lúxemborg í gær.

Flugvélin sem flytur Erítreumennina til Svíþjóðar
Flugvélin sem flytur Erítreumennina til Svíþjóðar AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert