Sendir hryðjuverkamönnum röng skilaboð

Mohammad Javad Zarif, utanríkisráðherra Írans.
Mohammad Javad Zarif, utanríkisráðherra Írans. AFP

Með því að skjóta niður rússneska orrustuþotu senda stjórnvöld í Tyrklandi röng skilaboð til hryðjuverkamanna í Sýrlandi. Þetta sagði utanríkisráðherra Írans, Mohammad Javad Zarif, á fundi með Sergej Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, í gær.

Tyrknesk orrustuþota skaut í gær niður rússneska herþotu en Tyrkir segja hana hafa áður ítrekað rofið lofthelgi Tyrklands. Rússar hafa hafnað þessu og segja orrustuþotuna hafa verið í sýrlenskri lofthelgi. Rússar hafa í kjölfarið slitið stjórnmálasambandi við tyrknesk stjórnvöld og ennfremur hvatt ríkisborgara sína til þess að ferðast ekki til Tyrklands.

Zarif sagði atvikið eiga eftir að gera ástandið í Sýrlandi verra. Skilaboðin til hryðjuverkamanna væru þau að þeir gætu haldið hryðjuverkum sínum áfram með því að etja andstæðingum sínum saman. Rússar og Íranir eru helstu stuðningsmenn Bashar al-Assads, forseta Sýrlands, en Tyrkir hafa stutt uppreisnarmenn sem barist hafa gegn sýrlenskum stjórnvöldum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert