Varð fyrir aðkasti vegna skoðana á barneignum

Það eru ekki allir sem vilja eignast börn.
Það eru ekki allir sem vilja eignast börn. AFP

Bresk blaðakona sem sagðist opinberlega ekki vilja eignast börn þurfti að loka Twitter-aðgangi sínum tímabundið eftir að hún varð fyrir miklu aðkasti á netinu. Þar að auki þurfti öryggisvörður að fylgja henni inn í viðtal hjá BBC vegna hótana sem hún fékk.

Konan heitir Holly Brockwell og er 29 ára. Hún er ritstjóri heimasíðunnar Gadgette, þar sem fjallað er um tækni og lífsstíl og eru flestir lesendur síðunnar kvenkyns. Brockwell var fengin til að skrifa grein í sérstöku verkefni BBC um konur og kvenréttindi. Grein hennar hét „Desperate not to have children“ og var birt 22. nóvember. Þar lýsti hún því yfir að hún hefði engan áhuga á því að eignast börn.

„Það eru fimm orð sem ég get sagt sem kona sem býður upp á meiri gagnrýni en flest önnur: „Ég vil ekki eignast börn“,“ skrifaði Brockwell. „Það er ekkert við það að skapa aðra manneskju sem heillar mig.“

Í greininni  lýsti Brockwell algengustu viðbrögðum fólks þegar hún segist vilja fara í ófrjósemisaðgerð. Sagði hún fólk hafa kallað sig sjálfselska og að læknar hefðu verið tregir til að fræða hana um ófrjósemisaðgerðir.

En aðkastið sem Brockwell varð fyrir á netinu eftir að greinin var birt var svo mikið að hún þurfti að loka Twitter-aðganginum sínum og þurfti að fylgja henni úr bifreið sinni inn í höfuðstöðvar BBC af lífverði á dögunum. Var það gert vegna þess að stjórnendur BBC óttuðust að einhver myndi einfaldlega ráðast á Brockwell. „Það er engin leið til að flýja þetta. Þetta er á öllum samfélagsmiðlum, í vinnupóstinum og einkapóstinum,“ lýsti Brockwell fyrir blaðamanni BBC.

Brockwell skrifaði síðan aðra grein og lýsti því að hún hefði verið kölluð „fáfróð“, „sjálfselsk“, „heimsk“ og  „athyglissjúk“  vegna skoðana sinna á barneignum.

Sumir sögðu henni að ríkið ætti ekki að greiða niður ófrjósemisaðgerð á henni þar sem það ætti frekar að eyða peningunum „í veik börn“. Aðrir kölluðu hana „fjölmiðlahóru“ og einn karlmaður lýsti því yfir að hann myndi aldrei vilja stunda kynlíf með henni.

Sum skilaboðin voru þó jákvæð en að sögn Brockwell innihéldu flest skilaboðin móðgandi orð sem myndu aldrei beinast að karlmanni í sömu stöðu.

Þar að auki virtust flest skilaboðin koma frá karlmönnum. Brockwell sagði það dæmi um hvernig karlar reyndu oft að stjórna líkömum kvenna. Hún er nú aftur komin á Twitter.

Frétt The Independent. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert