Hælisleitendur í Svíþjóð gripnir ótta

AFP

„Ég kom út úr herberginu mínu til að sjá hvað var að gerast. Ég sá eldinn og hljóp út,“ segir Dawit, þrettán ára drengur frá Eþíópíu, sem býr í miðstöð í Svíþjóð fyrir hælisleitendur. Rödd hans er stöðug og án tilfinninga, en íkveikjan á tímabundið heimili hans hefur varpað skugga á vonir hans um öruggt líf.

Að minnsta kosti 25 miðstöðvar fyrir hælisleitendur hafa verið brenndar til grunna eða að hluta á þessu ári. Oft er kveikt í um miðja nótt á meðan farandfólkið er í svefni. Sumar miðstöðvarnar hafa verið grýttar, aðrar orðið fyrir skemmdarverkum.

Í bænum Malung var reistur tveggja metra hár kross fyrir utan miðstöð og eldur lagður að honum í anda bandarísku hreyfingarinnar Ku Klux Klan, sem rekur áróður um yfirburði hvíta kynstofnsins.

Heitir „réttlátri refsingu“

Stefan Lofven, forsætisráðherra Svíþjóðar og leiðtogi jafnaðarmanna, hefur heitið „raggeitunum réttlátri refsingu“ og segir að gerðir þeirra sverti „þjóðarstolt“ Svía.

Árásirnar hafa flestar verið gerðar í dreifbýli í suðurhluta Svíþjóðar þar sem öfgaflokkurinn Svíþjóðardemókratar hefur náð fótfestu.

Dawit (nafni hans hefur verið breytt) er í háskólabænum Lundi. Hann segir að sér og þrettán öðrum ungum íbúum í miðstöðinni hafi verið brugðið við árásina.

„Fólk var hrætt,“ viðurkennir hann. Hann lítur út fyrir að vera eldri en þrettán ára.

Lundur er á Skáni, þar sem velmegun er frekar mikil. Í bænum ræður frjálslyndi ríkjum, en allt í kring er vígi Svíþjóðardemókrata, sem eru nú orðnir þriðji stærsti flokkur landsins með 49 þingmenn og njóta 17,6% fylgis samkvæmt nýjustu skoðanakönnun.

Dawit var í herbergi sínu seint um kvöld þegar eldurinn braust út. Vel gekk að hemja eldinn en grimmdin á bak við árásina var áfall fyrir ungmennin.

Þeim fannst óhugsandi að gerð yrði árás á börn í leit að griðastað, sérstaklega í landi sem þekkt er fyrir umburðarlyndi og að vera opið.

„Kannski voru þeir dálítið barnalegir,“ segir Fernando Cruz, stjórnandi miðstöðvarinnar.

Tíðar atlögur

Íkveikjum hefur fjölgað samfara flóttamönnum. Svíar gera ráð fyrir 190 þúsund hælisleitendum á þessu ári og 170 þúsund á því næsta. Miðað við höfðatölu leita flestir hælis í Svíþjóð af öllum ríkjum Evrópusambandsins.

Tveimur dögum eftir árásina í Lundi var maður handtekinn þegar hann reyndi að brjótast inn í miðstöð fyrir hælisleitendur í Vänersborg til að „stinga útlendinga“ eins og hann sagði sjálfur.

Viku áður myrti öfgamaður vopnaður sverði kennara og nemanda, sem voru af erlendum uppruna, í Trollhättan, bæ skammt frá.

Enginn hefur enn látið lífið eða særst í íkveikjunum, en óttinn meðal farandmanna, sem hafa flúið stríð og ofsóknir vegna stjórnmála, trúar eða uppruna, er áþreifanlegur.

Svíþjóðardemókratar hafa líkt straumi farandmanna til Svíþjóðar við „innrás“ og eru ýmsir hópar, sem nóg er af á netinu, sakaðir um að kynda undir kynþáttahatri.

Yfirvöld hafa ekki komist að niðurstöðu um hvort árásirnar séu verk einstaklinga eða hópur manna eða samtök séu að verki.

Í miðstöðinni í Lundi gengur lífið sinn vanagang á ný. Við bakdyrnar, sem skemmdust í eldinum, hafa íbúar skilið eftir fjölda hjartalaga miða. „Velkomin! Ég vona að þið finnið nú til öryggis,“ segir á einum.

AFP
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert