Sex börn drukknuðu við strendur Tyrklands

Flóttamenn á grísku eyjunni Lesbos. Ekki ná allir svo langt.
Flóttamenn á grísku eyjunni Lesbos. Ekki ná allir svo langt. AFP

Að minnsta kosti sex börn drukknuðu þegar að tveir bátar sukku við strendur Tyrklands í dag. Bátarnir voru á leið til Grikklands í slæmu veðri.

Fimmtíu og fimm manns, frá Sýrlandi og Afganistan, voru um borð í fyrsta bátnum sem sökk í miklu hvassviðri og öldugangi skömmu eftir að hann lagði af stað frá tyrkneska bænum Ayvacik til grísku eyjunnar Lesbos. Tyrkneska landhelgisgæslan hefur nú þegar fundið lík fjögurra afganskra barna í sjónum. Tvö börn til viðbótar drukknuðu þegar að bátur sem þau voru um borð í á leið til grísku eyjunnar Kos sökk nálægt Bodrum. Bát þeirra hvolfdi vegna mikillar úrkomu og óveðurs.

2,2 milljónir manns hafa flúið frá Sýrlandi til Tyrklands í von um betra líf í Evrópu.

Tyrkland og Evrópusambandið hafa samþykkt að vinna saman að því að taka á móti flóttamönnunum og mun aðgerð þess efnis líklega vera tilbúin á sunnudaginn. Evrópusambandið mun veita Tyrklandi aukið fjárframlag og gera tyrkneskum ríkisborgurum kleift að ferðast innan álfunnar án landvistaleyfa í skiptum við aðstoð tyrkneskra yfirvalda í málefnum flóttamanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert