Rotnandi lík í illa förnum trébátum

Frá Japan.
Frá Japan. AFP

Að minnsta kosti ellefu trébátar, sumir illa skemmdir, hafa fundist við strandlengju Japans í október og nóvember. Í þeim voru tuttugu rotnandi lík sem ekki hafa verið borin kennsl á. Flestir bátanna hafa verið dregnir til hafna í landinu.

Á þriðjudag var einn bátanna dreginn að landi í Fukui eftir að þrjú lík fundust í honum. Starfsmaður strandgæslunnar kom auga á bátinn um 100 kílómetra frá landi á Japanshafi. Líkamsleifarnar voru afar illa farnar og að hluta til aðeins bein vegna mikillar rotnunar.

Japanskir fjölmiðlar hafa greint frá því að á bátunum sé kóreskt letur og eru fötin sem hafa fundist í bátunum einnig talin þaðan. Sérfræðingar telja hugsanlegt að bátarnir séu fiskibátar frá Norður-Kóreu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert