Rússneski hermaðurinn jarðaður

AFP

Rússneski hermaðurinn sem lést í björgunarleiðangri sem farinn var til þess að bjarga orrustuflugmönnunum tveimur, sem skotnir voru niður við landamæri Tyrklands og Sýrlands síðastliðinn þriðjudag, var borinn til grafar í dag. Útförin var haldin á vegum rússneska ríkisins og stóðu hermenn því heiðursvörð.

Hinn látni hét Alexander Pozynich, 29 ára að aldri, og búsettur í bænum Novocherkassk í suðurhluta Rússlands. Var hann grafinn í heimabæ sínum.

Rússneskir fréttamiðlar greina frá því að Pozynich hafi verið atvinnuhermaður, með 10 ára starfsreynslu að baki, og tilheyrt sveitum landgönguliða flotans. Var hann einn þeirra sem um borð voru í annarri af þeim tveimur Mi-8 herþyrlum sem sendar voru til að bjarga rússneskum orrustuflugmönnum sem skotnir voru niður af flugher Tyrklands.

Í leiðangrinum var skotið á þyrlurnar og þurfti önnur þeirra að nauðlenda vegna þessa, en Pozynich lést í árásinni. Aðrir sem voru með honum um borð sakaði ekki.

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, sæmdi Pozynich heiðursorðu fyrir þátttöku sína í leiðangrinum. Hann lætur eftir sig eiginkonu og tvö börn.

Annar tveggja flugmanna sem voru um borð í herþotunni lést, en hann var skotinn til bana af uppreisnarmönnum í fallhlíf sinni á leið til jarðar. Hét hann Oleg Peshkov og var sæmdur einni af æðstu orðum Rússlands.

Rússneskum hersveitum tókst að endurheimta hinn flugmanninn og hefur hann verið fluttur á herstöð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert