Vilja eyða frelsisvonum fólksins

Sýrlenski læknirinn og flóttamaðurinn Bashar Farahat
Sýrlenski læknirinn og flóttamaðurinn Bashar Farahat mbl.is/Styrmir Kári

Sýrlenski læknirinn og flóttamaðurinn Bashar Farahat flúði átökin í Sýrlandi og fór yfir til Líbanons, þar sem hann aðstoðaði aðra flóttamenn.

Vinur hans aðstoðaði við flóttann og voru þeir báðir í mikilli hættu. Félagarnir fóru í gegnum eftirlitsstöðvar á leiðinni án þess að verðirnir kæmust að því að Farahat hefði tvisvar verið handtekinn og síðan neitað að ganga í stjórnarherinn. Hann bjó í líbönsku höfuðborginni Beirút í rúmt ár og veitti þar flóttafólki læknisþjónustu. Álagið var mikið, enda eru nú um milljón sýrlenskir flóttamenn í Líbanon. Svo fór að Farahat fékk stöðu flóttamanns og flutti til Bretlands í janúar á þessu ári. Hann fær þar ekki starf við hæfi, þar sem gamli háskólinn neitar að staðfesta prófgráðuna. Hann er á svörtum lista í Sýrlandi.

Í mars 2011 hófst uppreisn gegn forseta Sýrlands, uppreisn sem …
Í mars 2011 hófst uppreisn gegn forseta Sýrlands, uppreisn sem fljótlega breyttist í borgarastyrjöld sem enn sést ekki fyrir endan á. AFP

Farahat sagði Morgunblaðinu sögu sína á fimmtudag áður en hann hélt fyrirlestur um erfiða reynslu sína. Það leyndi sér ekki í viðtalinu að hann glímir við sárar minningar.

Farahat stundaði sérfræðinám í barnalækningum í Aleppo, stærstu borg Sýrlands, þegar hann var fyrst handtekinn í júlí árið 2012. Var þá um eitt og hálft ár liðið síðan arabíska vorið náði til Sýrlands.

Samkvæmt nýrri skýrslu læknasamtakanna Physicians for Human Rights (PHR) hafa verið gerðar 45 árásir á sjúkrahús í Aleppo á síðustu þremur árum. Innan við þriðjungur sjúkrahúsanna er nú starfhæfur og hafa 95% læknanna flúið, þeir verið teknir höndum eða líflátnir.

GEORGE OURFALIAN

Virkur í mótmælunum

Það gerðist í fyrra að uppljóstrari smyglaði út úr Sýrlandi myndum af 55 þúsund líkum sem höfðu verið krufin af læknum einræðisstjórnarinnar. Báru mörg þeirra merki pyntinga og þykja myndirnar því meðal sterkustu vísbendinga um kerfisbundnar pyntingar einræðisstjórnarinnar árin 2011-13.

Pyntuðu til að drepa

Það var á þessu tímabili sem Farahat var tekinn til fanga, í júlí 2012.

„Ég var tekinn höndum vegna þess að ég var læknir og tók virkan þátt í friðsömum mótmælum.

Sýrlenska stjórnin er einræðisstjórn. Ég stóð með fólki sem vildi frelsi og betra líf. Það krafðist grundvallarmannréttinda.

Þeir handtóku mig á spítalanum og færðu mig í leynilega fangastöð, þar sem ég var í 15 daga, og svo fluttu þeir mig til Damaskus. Þar eru höfuðstöðvar leyniþjónustunnar og leynileg fangelsi. Það eru leynilegar stöðvar um allt Sýrland.“

AFP

Farahat var færður í fangaklefa sem var á annarri hæð í kjallara. Þar sást ekki til sólar og þar var engin loftræsting. „Allir sýrlenskir fangar hafa heyrt setningu sem er stundum sögð af vörðum í leynilegum fangelsum í Sýrlandi: „Bankið á dyrnar þegar einhver deyr, þá getum við flutt líkið í burtu.“ Þessa setningu segja fangaverðirnir sífellt oftar.

Eftir handtökuna upplifði ég stöðugar pyntingar frá fyrstu mínútu og þar til mér var sleppt. Fangaklefarnir eru verstu staðir í heimi. Ég var settur í klefa sem var fimm sinnum sex metrar, ásamt 95-110 öðrum föngum. Ég var í fjóra mánuði í þessu rými, svaf tvo til fjóra tíma á dag þegar best lét. Mitt rými var 30 sinnum 140 sentímetrar. Því deildi ég með öðrum fanga. Annar stóð meðan hinn svaf. Svona gekk þetta til skiptis. Þegar ég hugsa um þetta spyr ég sjálfan mig hvernig ég lifði þetta af,“ segir Farahat.

Hann var beittur ofbeldi í yfirheyrslum, sleginn hnefahöggum og barinn með málmstöng. Þrýst var á hann að gefa upp nöfn fólks úr mótmælunum en hann neitaði.

AFP

„Heilbrigðisþjónustan í fangelsinu var mjög léleg. Af 100 föngum voru um 90 veikir, eða með sár eða maurakláða. Þessi einfaldi sjúkdómur getur verið lífshættulegur og fólk dáið af völdum hans. Það er nauðsynlegt að fá lyf, annars verða einkennin verri,“ segir Farahat, sem þjáðist sjálfur af maurakláða.

Vegna menntunar hans sögðu fangaverðirnir við Farahat að hann skyldi vera læknir fanganna. Farahat gat hins vegar lítið gert fyrir þá.

Mikil skoðanakúgun

Farahat segir einræðisstjórn Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, sá fræjum ótta meðal þegnanna.

„Nú er ástandið þannig í Sýrlandi að ef sögð er setning um einræðisstjórnina er það skráð og tilkynnt til leynilegrar lögreglustöðvar. Sá sem talar á þá á hættu að verða handtekinn vegna ummælanna. Það má ekki segja skoðun sína á nokkrum hlut. Með arabíska vorinu fannst fólkinu að það væri kominn tími til að segja hug sinn og mótmæla,“ segir Farahat, sem var aftur handtekinn í apríl 2013 eftir að hafa verið frjáls í þrjá mánuði. Hann var þá kominn á svartan lista og fékk ekki að snúa aftur til starfa á spítalanum.

AFP

„Ég sat á kaffihúsi með félögum mínum. Tveir þeirra voru að vinna sem blaðamenn. Þeir voru á móti einræðisstjórninni. Fulltrúar leyniþjónustunnar komu inn á kaffihúsið og handtóku þá. Þeir handtóku líka fleiri gesti kaffishússins, alls um tíu manns, mig þar með talinn. Þeir fluttu okkur á leynilegan stað þar sem fólki er haldið föngnu. Þegar þeir könnuðu bakgrunn minn fundu þeir út að ég hefði verið í fangelsi. Þeir ákváðu því að halda mér í fimm mánuði,“ segir Farahat, sem var þá með um 60 föngum í klefa sem var fjórir metrar sinnum þrír og hálfur metri.

Handtaka eiginkonurnar

Farahat segir fangana pyntaða og krafna svara um hverjir tóku þátt í mótmælum með þeim, hver hafi boðað til mótmæla og þar fram eftir götunum. Þá séu dæmi um að stjórnin handtaki ættingja manna sem henni takist ekki að ná til. Það sé talið skapa tak á mönnum að handtaka eiginkonur þeirra. „Eftir að fólk er tekið höndum er útbúin skýrsla og upplýsingarnar sendar til miðstöðvar leyniþjónustunnar í Damaskus. Síðan ákveða yfirvöld í Damaskus hvort fólkið skuli flutt þangað,“ segir Farahat og víkur að skýrslu Amnesty International þar sem segir að Sýrlandsstjórn haldi 70 þúsund manns föngnum.

„Sýrlensk samtök og lögmenn tala um að yfir 100 þúsund manns séu í haldi. Margir neita að gefa upp nöfn fólks sem er í haldi af ótta við að það muni leiða til meiri pyntinga. Ég hef séð áætlað að yfir 500 þúsund Sýrlendingar hafi verið settir í varðhald frá árinu 2011 og til þessa dags.“

Farahat segir margar ástæður fyrir því að svo margir almennir borgarar séu teknir höndum í Sýrlandi.

„Þeir vildu kæfa byltinguna með því að hneppa alla í varðhald sem tóku beinan eða óbeinan þátt í henni. Þeir reyndu að ná friðsömum mótmælendum, enda vissu þeir að friðsöm ásýnd byltingarinnar var þeim mjög hættuleg. Þeir vildu að þetta yrði stríð. Það væri betra fyrir einræðisstjórnina að þetta væri stríð,“ segir Farahat og rökstyður mál sitt.

Þurfa á Ríki íslams að halda

„Það er grundvallaratriði fyrir einræðisstjórnina að aðgerðir hennar hafi yfirbragð baráttu gegn íslömskum öflum. Að í slíkri stöðu sé einræðisstjórnin rétta lausnin á flókinni stöðu. Einræðisstjórnin hamast við að skapa þá ímynd af stríðinu að það sé barátta við íslamskar hreyfingar á borð við Ríki íslams og al-Kaída. Það er augljóst að stjórn Assads er að reyna að leika á Vesturlönd og stuðla að því að á Vesturlöndum sé litið svo á að allir séu þessir kostir slæmir en einræðisstjórnin sá illskásti. Áætlun hennar var að handtaka eins marga mótmælendur og mögulegt var. Hvernig getur uppreisn verið friðsöm þegar allir friðsömu mótmælendurnir hafa annaðhvort verið drepnir eða þeir flúið? Þá verður augljóslega stríð.

AFP

Einræðisstjórnin og Ríki íslams hafa gagnkvæma hagsmuni af því að vera í stríði. Ríki íslams gefur sig út fyrir að berjast gegn veraldlegri stjórn og þannig vernda íslam og stuðla að uppbyggingu á íslömsku ríki. Í stríðinu þurfa allir að benda á óvin til að réttlæta tilveru sína,“ segir læknirinn Bashar Farahat.

Bréfamaraþonssíða Amnesty International

Um helmingur Sýrlendinga hefur flúið heimili sín.
Um helmingur Sýrlendinga hefur flúið heimili sín. AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert