Brenndi hvolp og henti út um glugga

Tuffy litli er á batavegi.
Tuffy litli er á batavegi.

Hvolpur sem sjóðandi vatni var skvett á og honum svo hent út um glugga af fjórðu hæð, er á batavegi. Það var eigandi hans sem sýndi honum þessa grimmd.

Hvolpurinn heitir Tuffy. Eigandinn sturlaðist er hann kom að hvutta að naga farsíma í íbúð í borginni Chengdu í Kína. 

Í frétt Sky kemur fram að það varð Tuffy til lífs að kona ein, Yan Yingying, sá hann á gangstéttinni og flýtti sér með hann til dýralæknis. Hún greiddi svo fyrir alla meðferð hans. Í fyrstu sýndi Tuffy engin batamerki og voru þá samtökin Animals Asia fengin til stuðnings. Þau hafa hingað til einbeitt sér að björgun skógarbjarna. 

Hvolpurinn var með brunasár á 60% skrokks síns og hann þurfti húðágræðslu til að ná bata. Þá varð hann að sofa með augun opin því augnlok hans voru strekkt vegna brunasáranna. 

„Ég hef aldrei séð dýr þjást svona mikið,“ hefur Sky eftir dýralækninum. Hann segir að Yan hafi vissulega bjargað lífi hundsins. 

Tuffy var þakinn sárabindum mánuðum saman og þurfti stöðugt að fá verkjalyf.

Sérfræðingur frá Hong Kong kom einnig til aðstoðar til að veita honum meðferð á augum og fótum. Nú, mörgum mánuðum síðar, býr hann hjá bjargvætti sínum. Hann hefur það ágætt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert