Kveikt í húsum og fólki rænt

Veggspjald sem sýnir eftirlýsta vígamenn Boko Haram í Nígeríu.
Veggspjald sem sýnir eftirlýsta vígamenn Boko Haram í Nígeríu. AFP

Vígamenn Boko Haram drápu átta manns um helgina í norðaustur Nígeríu og suðaustur Níger í hrottafullum árásum á þorp þar sem kveikt var í húsum og fólki rænt.

Árásirnar voru í Bam-Buratai í Nígeríu og Diffa héraði Níger og gerðust á laugardaginn. Daginn eftir réðust vígamenn Boko Haram síðan á þorpið Gulak í Adamawa héraði Nígeríu.

Árásum samtakanna á þorp hefur fækkað síðustu mánuði, líklega vegna sóknar nígeríska hersveita á landsbyggðinni. Hópurinn hefur upp á síðkastið frekar beitt sjálfsmorðssprengjum og sprengjuárásum á fjölmennum svæðum. 

Talsmaður Nígeríuhers, Sani Usman, staðfesti árásina í Bam-Buratai. Íbúar sem flúðu þorpið sögðu vígamennina hafi komið til þorpsins á hjólum og hlaupandi vopnaðir byssum. Árásin hófst um klukkan 23 að staðartíma.

Árásarmennirnir skutu stöðugt og köstuðu sprengjum inn á heimili.

„Þeir skutu þrjá til bana og brenndu annan lifandi á heimili hans. Síðan rændu þeir tveimur konum og þremur börnum. Þeir keyrðu með þau burt í tveimur bifreiðum sem þeir stálu í þorpinu,“ sagði einn íbúi á svæðinu sem vildi ekki koma undir nafni.

Boko Haram hefur verið starfandi í sex ár. Þeir hafa áður rænt konum og börnum en það vakti heimsathygli þegar þeir rændu 219 skólastúlkum úr bænum Chibok í apríl 2014.

Hinumegin við landamærin, í Níger, voru fjórir drepnir, tveir særðir og kveikt í rúmlega fimmtíu heimilum á laugardagskvöldið.

Að sögn vitna voru vígamennirnir vopnaðir Kalashnikov rifflum.

Árásir Boko Haram hafa verið áberandi í Nígeríu síðustu mánuði og ár. Í síðustu viku dóu til að mynda 18 í árásum þeirra nálægt bænum Bosso í suðaustur Nígeríu. Þrjú fórnarlambanna voru skorin á háls.

Á laugardaginn sprengdu tvær konur sig jafnframt í loft upp í norður Kamerún. Þá létu fimm lífið og tveir særðust alvarlega.

Markmið Boko Haram er að búa til íslamskt ríki í Norðaustur Nígeríu. Að minnsta kosti 17.000 hafa látið lífið í árásum Boko Haram og rúmlega 2,6 milljónir missti heimili sín.

Forseti Nígeríu, Muhammadu Buhari, hefur gefið hersveitum sínum til áramóta til þess að tortíma samtökunum, en viðurkenndi nýlega að sjálfsmorðsárásir og sprengingar gætu haldið áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert