Lestarferðum aflýst vegna skemmdarverka

AFP

Hraðlestir stöðvuðust í Belgíu í dag eftir að kveikt var í rafköplum á leiðum þeirra á milli Brussel og frönsku borgarinnar Lille. Ekki voru unnin skemmdarverk á öðrum leiðum lestanna, s.s. til Parísar og London. Þó hefur nokkrum ferðum til þessara áfangastaða verið frestað. 

„Engar lestir fóru frá Brussel til Lille í dag og engar lestir hafa farið frá Lille og til Brussel,“ segir talsmaður lestarfyrirtækisins. 

„Í fyrstu héldum við að rafköplum hefði verið stolið en annað kom á daginn. Það var viljandi kveikt í köplum,“ segir talsmaðurinn. 

Kveikt var í köplum á fjórum stöðum. Kaplarnir tengjast leiðakerfi lestanna. 

Lögreglan er á vettvangi og hefur hafið rannsókn málinu. Ekki er búist við því að lestirnar muni ganga aftur fyrr en í fyrsta lagi seinni partinn í dag. 

Lestarteinarnir sem nú eru lokaðir eru notaðir af nokkrum lestarfyrirtækjum, m.a. Eurostar. 

Viðbúnaðarstig vegna yfirvofandi hryðjuverka er enn hátt í Belgíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert