Mannréttindabrot að banna fóstureyðingar

Fóstureyðingar eru hitamál á Norður-Írlandi, Írlandi og í Bandaríkjunum. Myndin …
Fóstureyðingar eru hitamál á Norður-Írlandi, Írlandi og í Bandaríkjunum. Myndin hér fyrir ofan er tekin í mótmælum í Los Angeles og tengist fréttinni ekki beint. AFP

Dómstóll í Belfast hefur komist að þeirri niðurstöðu að lög sem banna fóstureyðingar á Norður-Írlandi séu „ósamræmanleg mannréttindum“. Dómurinn gæti leitt til þess að viðkomandi lög verði rýmkuð.

Norður-Írland er eina svæði Bretlands þar sem bresk lög um fóstureyðingar gilda ekki. Mannréttindanefnd Norður-Írlands segir að úrskurður dómarans í Belfast gæti orðið til þess að fóstureyðingar verði heimilaðar þegar um er að ræða þungun í kjölfar nauðgunar eða sifjaspells, eða meiriháttar fósturgalla.

Fram til þessa hefur heilbrigðisstarfsfólk átt yfir höfði sér lífstíðarfangelsi fyrir að framkvæma fóstureyðingu.

Mannréttindanefndin hefur fagnað niðurstöðunni og segir hana sögulega. Það var nefndin sem höfðaði umrætt mál. Meðal þeirra sem veittu umsagnir var Sarah Ewart, sem sagði frá því opinberlega að hafa þurft að ferðast til Lundúna til að gangast undir fóstureyðingu eftir að fóstrið var greint með alvarlegan heilagalla.

Meðal stjórnmálamanna á Norður-Írlandi ríkir mikil andstaða gegn því að taka frjálslyndari stefnu þegar kemur að fóstureyðingum. Þetta á við um alla flokka.

Í júlí sl. skoruðu um 200 einstaklingar, aðallega konur, á lögreglu að handtaka sig eftir að þeir viðurkenndu í opnu bréfi að hafa útvegað öðrum svokallaðar fóstureyðingatöflur.

Talið er að um þúsund konur ferðist árlega frá Norður-Írlandi til annarra svæða Bretlands til að gangast undir fóstureyðingu. Opinberar tölur frá 2013 gefa til kynna að fjöldi kvenna sem leitaði út fyrir landsteinana í þessum tilgangi hafi verið 800, en meðal þeirra var 13 ára stúlka sem var fórnarlamb sifjaspells.

Guardian sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert