Ögurstund að renna upp í París

Leiðtogar heims safnast nú saman í París þar sem fram fer loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna. Mikla vonir eru bundnar við ráðstefnuna, þar sem freista á þess að ná bindandi samkomulagi til að takmarka hlýnun jarðar við 2 gráður.

Um 150 þjóðarleiðtogar söfnuðust saman í ráðstefnumiðstöð í úthverfi Parísarborgar, en gríðarleg öryggisgæsla er á svæðinu í kjölfar hryðjuverkaárásanna í borginni 13. nóvember sl. Viðræður þeirra á næstu dögum munu m.a. snúa að því að komast að samkomulagi um aðgerðir til að draga úr mikilvægi jarðefnaeldsneytis fyrir hagkerfi heimsins.

Vísindamenn hafa varað við því að ef ekki verður gripið til aðgerða muni mannkynið upplifa síversnandi veðurtengdar hörmungar, s.s. þurrka og hækkunar sjávar. Þeim gætu m.a. fylgt átök og eyðilegging landsvæða sem liggja lágt yfir sjávarborði.

Barack Obama og Xi Jinping á tvíhliða fundi fyrir setningu …
Barack Obama og Xi Jinping á tvíhliða fundi fyrir setningu ráðstefnunnar í dag. AFP

Leiðtogarnir hafa heitið því að komast að metnaðarfullu samkomulagi til að heiðra minningu þeirra 130 sem voru myrtir í árásunum fyrr í mánuðinum.

„Örlög mannkynsins eru undir á þessari ráðstefnu,“ sagði Francois Hollande, forseti Frakklands. „Í kjölfar árásanna í Frakklandi verðum við að ráðast í aðkallandi forgangsverkefni og bregðast við áskorun hryðjuverka en ennig að grípa til aðgerða til lengri tíma.“

Í viðtali við dagblaðið 20 minutes sagði Hollande að leiðtogarnir myndu bæði ítreka samstöðu sína með Frakklandi og axla ábyrgð andspænis hlýnandi loftslagi. „Sagan mun dæma þjóðarleiðtoga og ríkisstjórnir harkalega ef þeir láta þetta tækifæri í desember 2015 renna sér úr greipum.“

Barack Obama Bandaríkjaforseti byrjaði heimsókn sína í Frakklandi á því að votta látnum virðingu sína við Bataclan-tónleikahúsið. Hann sagði ráðstefnuna tækifæri til að sýna samstöðu með elsta bandamanni Bandaríkjanna og til að ítreka skuldbindinguna um að verjast gegn hryðjuverkaógninni.

Manuel Pulgar Vidal, umhverfisráðherra Perú, ávarpar þjóðarleitoga við setningu loftslagsráðstefnunnar …
Manuel Pulgar Vidal, umhverfisráðherra Perú, ávarpar þjóðarleitoga við setningu loftslagsráðstefnunnar í dag. AFP

Djúpur ágreiningur

Sameinuðu þjóðirnar hafa staðið fyrir árlegum ráðstefnum um loftslagsbreytingar allt frá 1995, en erfitt hefur reynst að ná samhljóm um aðgerðir ekki síst vegna ólíkrar afstöðu ríkra og fátækari ríkja.

Leiðtogar hinna minna efnuðu ríkja hafa krafist þess að hinar efnameiri þjóðir axli meginábyrgð á aðgerðum, þar sem þau hafa notað bróðurpart þess jarðefnaeldsneytis sem komið hefur upp úr jörðinni.

Í grein Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, sem birtist í Financial Times, sagði hann aðeins réttlátt að þróunarríkin fengju að nýta það litla jarðefnaeldsneyti sem óhætt er að brenna til að vaxa. „Lífstíll hinna fáu má ekki þrengja að tækifærum hinna mörgu sem eru enn á fyrstu stigum þróunarstigans,“ sagði hann.

Bandaríkin og önnur þróuð ríki hafa hins vegar sagt að Kína, Indland og önnur ríki í áþekkri stöðu  verði einnig að leggja sitt af mörkum. Efnahagsvöxtur í viðkomandi ríkjum hefur verið háður síaukinni kolabrennslu.

Til marks um þetta má nefna að í dag liggur þykkur mengunarmökkur yfir Peking og öðrum svæðum í norðurhluta Kína.

Eitraður mengunarmökkur liggur yfir Peking, en gildi skaðlegra efna í …
Eitraður mengunarmökkur liggur yfir Peking, en gildi skaðlegra efna í honum eru tuttugu sinnum hærri en heilsuverndarviðmið kveða á um. AFP

Viðræðurnar í París munu mögulega stranda á fjármögnun til handa fátækari ríkjum og ríkjum sem eru viðkvæm fyrir áhrifum hlýnandi loftslags, útfærsluatriðum er varða samkomulag um samdrátt í losun gróðurhúsaloftegunda, eða jafnvel lögmæti endanlegs samkomulags.

Marktækur árangur þykir þó hafa náðst í aðdraganda ráðstefnunnar, sem birtist m.a. í aðgerðaráætlunum sem 183 ríki hafa lagt fram. Loftslagsstýra SÞ, Christiana Figueres, hefur sagt að áætlanirnar séu grundvöllur metnaðarfullra aðgerða sem gætu mögulega takmarkað hlýnun við tvær gráður.

Vísindamenn segja að takmarka verði hækkunina við tvær gráður ef takast á að forða mannkyninu frá hörmulegustu afleiðingum loftslagsbreytinga.

Þurrkar og aðrir ógnir steðja að mannkyninu ef leiðtogar ná …
Þurrkar og aðrir ógnir steðja að mannkyninu ef leiðtogar ná ekki saman um aðgerðir. AFP

„Engin pláneta B“

Yfir hálf milljón manna tók þátt í mótmælum um helgina, víðsvegar um heiminn, en á mótmælaspjöldum í Hyde Park í Lundúnum stóð m.a. „Það er engin pláneta B“ og „Börnin okkar þurfa að eiga framtíð“.

Yfirvöld í Frakklandi hafa bannað mótmæli í kjölfar hryðjuverkaárásanna en það stoppaði ekki þúsundir frá því að koma saman í París til að mynda tveggja km langa keðju. Gjörningur þeirra var truflaður þegar „and-kapítalistar“ dreifðu sér meðal viðstaddra og til átaka kom við óeirðarlögreglu. Um 317 voru handteknir.

EIffel-turninn verður baðaður grænu á meðan ráðstefnan stendur yfir, en …
EIffel-turninn verður baðaður grænu á meðan ráðstefnan stendur yfir, en um er að ræða listgjörning. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert