Stærðin skiptir máli

Smokkar eru 98% öruggir sem getnaðarvörn þegar þeir eru notaðir …
Smokkar eru 98% öruggir sem getnaðarvörn þegar þeir eru notaðir rétt. mbl.is/Eggert

Heilsugæsla í Stokkhólmi í Svíþjóð ætlar að dreifa sérhönnuðu málbandi til ungra karlmanna í borginni og eru þeir hvattir til nota það til að mæla stærð limsins. 

Heilsugæslan þjónustar fólk sem er 23 ára og yngra. Markmiðið með þessu er að auka notkun smokksins og tryggja það að ungir karlar kaupi rétta stærð af smokkum í þeim tilgangi að draga úr útbreiðslu kynsjúkdóma. 

Málbandið er sérhannað, en það mælir ekki lengd limsins heldur ummál hans. Því verður dreift ókeypis frá og með morgundeginum. 

„Algeng ástæða þess að smokkurinn rennur af eða rifnar við kynmök, er sú að þú hefur keypt ranga stærð. Þú þarft að mæla ummál limsins þegar hann er í fullri reisn, ekki lengdina,“ segir Eddie Sandström, sem er hjúkrunarfræðingur á heilsugæslunni. 

Hann segir að málbandinu fylgi ráðleggingar um hvaða tegundir af smokkum henti viðkomandi. 

Hann segir í samtali við AFP-fréttaveituna, að hingað til hafi önnur átök, sem ráðist hafið verið í til að hefta útbreiðslu kynsjúkdóma, hafi ekki gengið sem skyldi til að fá fleiri unga Svía til að nota smokkinn. 

Hann segir að fleiri greinist nú með leikanda og þá hafi tilfellum klamydíu ekki farið fækkandi þrátt fyrir aðgerðir til að hvetja fólk til árvekni. 

Hann kveðst vera bjartsýnn, því fimm menn mættu á heilsugæsluna í dag til að óska eftir málbandi - degi áður en átakið hefst með formlegum hætti.

Nánari upplýsingar um smokkanotkun

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert