Stormurinn Gormur gerði allt vitlaust

Af forsíðu Berlingske. Talsmenn tryggingafélaganna segja enn ekki ljóst hvort …
Af forsíðu Berlingske. Talsmenn tryggingafélaganna segja enn ekki ljóst hvort Gormur hafi valdið jafn miklu tjóni og frændi hans fellibylurinn Allan sem reið yfir 28. október 2013. Skjáskot af b.dk

Stormurinn Gormur fór illa með bæði Dani og Svía í gær og í nótt en hann er einn sá kraftmesti sem gengið hefur yfir nágrannalöndin í áraraðir.

Gormur greip með sér tré og rafmagnslínur í suðurhluta Svíþjóðar auk þess sem fregnir bárust af skemmdum á þökum og bílum.

Tugir þúsunda Svía, alls 55 þúsund manns, misstu rafmagnið af húsum sínum yfir helgina. Samkvæmt The Local hafa orkufyrirtæki varað við því að það gæti tekið nokkra daga að koma rafmagni aftur á við sumar þjónustustöðvar. Í morgun hefur þó tekist að koma rafmagni aftur á hjá um 10 þúsund íbúum.

„Við höfum upplifað allt frá skorsteinum sem hafa losnað og fokið niður til þaka sem hafa losnað af og hlöður sem bókstaflega rifnuðu upp af jörðinni,“ sagði talsmaður neyðarþjónustu í Halland, Johan Wallin. „Það verða mörg fleiri símtöl þegar rafmagnið kemst aftur á, við erum að heyra af því að tré liggi víða í sýslunni.“

Brúnni yfir Eyrarsund var lokað um miðnætti í gær eftir að vindhraði náði 32 metrum á sekúndu en unnt var að opna brúna aftur áður en mesta morgunumferðin fór af stað.

Lestir hófu aftur að ganga yfir brúna um klukkan sjö að staðartíma en ferðalangar hafa verið varaðir við því að nokkuð verði um seinkanir og niðurfellingar ferða allt í gegnum daginn sökum fallinna trjáa og braks á lestarteinum.

 236 útköll og 450 tryggingatikynningar

Nafnið Gormur fékk stormurinn frá veðurstofu Danmerkur samkvæmt alþjóðlegum hefðum um nafngiftir illviðra. Nöfnin eru gefin í stafrófsröð og eru karl- og kvenmannsnöfn til skiptis. Síðasti stóri stormurinn sem skall á Skandinavíu var Freyja í nóvember.

Samkvæmt Berlingske fór neyðarþjónustan Falck í 236 útköll í Danmörku vegna Gorms á síðastliðnum sólarhring en það voru einna helst Mið-Jótland og Norður-Sjáland sem urðu fyrir barðinu á kauða. Greinir miðillinn jafnframt frá því að á síðustu klukkutímunum hafi  tvö stærstu tryggingafélög landsins, Tryg og Codan tekið á móti yfir 450 tilkynningum vegna Gorms.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert