Liðhlaup í röðum Ríkis íslams

Vígamenn Ríkis íslams í Sýrlandi.
Vígamenn Ríkis íslams í Sýrlandi.

Liðhlaup virðist hafið í röðum vígasveita Ríkis íslams í Sýrlandi og Írak og fara vaxandi, að sögn Steve Warren ofursta í bandaríska heraflanum sem þátt tekur í lofthernaðinum á hendur sveitunum.

Warren segir liðhlaupið hafa orðið til þess að veikja varnir vígasveitanna í mörgum af helstu vígjum þeirra. Hann segir aðra hættu stafa af liðhlaupinu, að stöku bardagamenn grípi til aðgerða upp á eigin spýtur eftir að heim er snúið sem harðnaðir vígamenn.

Sérstaklega mun liðhlaupið mikið í Írak en Warren ofursti segir jihadista hafa flúið þar í stórum stíl. Eftir skilji þeir lítt eða ekkert mannaðar varðstöðvar sem háttsettir og vel þjálfaðir erlendir liðsmenn sveita IS neyðist til að gæta í stað lægra settra manna. Það þykir til marks um að slíkum mönnum fari fækkandi í sveitum óvinarins.

Nefndi hann sem dæmi að 90 liðsmenn hryðjuverkasveita Ríkis íslams hafi afhent kúrdískum herjum vopn sín við bæinn Kirkuk sem er í klukkustundar akstursfjarlægð frá höfuðstað hins íraska Kúrdistan, Erbil.

Bandamenn áætla að þeir hafi fellt um 23.000 hryðjuverkamenn Ríkis íslam frá því loftárásir voru hafnar á skotmörk þeirra. Enn geti samtökin þó reitt sig á um 30.000 jíhadista í Írak og Sýrlandi. Flestir þeirra haldi til og verji virki þeirra eins og borgina Raqqa í Sýrlandi og Mosul, næst stærstu borg í Írak.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert