Ritskoða New York Times í Taílandi

Auður rammi á forsíðu alþjóðlegrar útgáfu New York Times í …
Auður rammi á forsíðu alþjóðlegrar útgáfu New York Times í Taílandi í dag. AFP

Auður rammi blasti við lesendum bandaríska blaðsins New York Times í Taílandi á forsíðu þess í dag en prentsmiðja sem prentar blaðið þar fjarlægði grein sem fjallaði um efnahagsvandræði landsins. Blaðið segir að þetta sé í annað skiptið á tíu vikum sem prentsmiðjan neitar að birta grein.

Þrengt hefur verið að frelsi fjölmiðla í Taílandi frá því að herforingjastjórn tók yfir stjórn landsins í fyrra. Í alþjóðlegri útgáfu New York Times átti að birtast grein undir fyrirsögninni „Taílenska hagkerfið og lundin dalar“. Hún fjallaði um hvernig herforingjastjórninni hefði mistekist að koma hagkerfinu af stað og vísaði stuttlega til vangaveltna um hver taki við af konungi landsins sem er orðinn 87 ára gamall.

Í stað greinarinnar birtist auður rammi á forsíðunni og inni í blaðinu. Talsmaður New York Times segir að blaðið og ritstjórn þess hafi ekki komið nálægt þeirri ákvörðun að birta greinina ekki. Fulltrúar prentsmiðjunnar sem prentar blaðið í Taílandi vildu ekki tjá sig um málið þegar AFP-fréttastofan leitaði eftir því. Greinin er enn aðgengileg á netinu í Taílandi.

Í september var blaðið í heild ekki prentað vegna þess að í Asíuhluta þess var ítarlega forsíðufrétt um heilsu Bhumibol konungs og fjallað um áhyggjur af arftaka hans. Krónprinsinn Maha Vajiralongkorn á að taka við en hann nýtur hins vegar ekki sömu lýðhylli og faðir hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert