Skítugi-Harry bölvar páfanum

Rodrigo Duterte tilkynnti um forsetaframboð sitt á fundi í Manila …
Rodrigo Duterte tilkynnti um forsetaframboð sitt á fundi í Manila í gær. AFP

Kaþólskir biskupar á Filippseyjum gagnrýna harðlega einn frambjóðenda í forsetakosningum landsins en hann hefur viðurnefnið „Skítugi-Harry“ eftir fúkyrðafyllta ræðu þar sem hann bölvaði meðal annars páfanum, stærði sig af hjákonum og að hafa drepið grunaða glæpamenn.

Rodrigo Duterte hlaut viðurnefnið Skítugi-Harry vegna harðlínustefnu sinnar gegn glæpum sem þykir minna á persónu sem Clint Eastwood lék. Hann hefur verið borgarstjóri í borginni Davao en hann lýsti því yfir í gær að hann sækist eftir embætti forseta í kosningum á næsta ári.

Vísaði hann til heimsóknar Frans páfa til höfuðborgarinnar Manila í janúar og kenndi honum um meiriháttar umferðaröngþveiti í borginni.

„Páfi, hórusonur, af hverju ferðu ekki heim,“ sagði Duterte við hlátrarsköll stuðningsmanna sinna.

Borgarstjórinn hefur áður montað sig af hversu hart hann taki á glæpamönnum. Hafa mannréttindasamtök sakað hann um að umbera eða stjórna dauðasveitum sem drepi grunaða glæpamenn í borginni.

Biskuparnir töldu sig ekki geta orða bundist en óvenjulegt er að þeir skipti sér af forsetaframbjóðendum. Fyrir utan ummælin um páfa vektu fullyrðingar hans um að hafa drepið grunaða glæpamenn spurningar um hvort hann væri hæfur til að verða forseti.

„Að myrða fólk er spilling. Morð eru glæpur og synd sama hvort þau séu framin af glæpamönnum eða opinberum embættismönnum og óháð ásetningnum. Hórdómur er spilling. Dónaskapur er spilling,“ segir í yfirlýsingu frá biskupunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert