Grunaðir um tengsl við „hryðjuverkahóp“

Þýskur lögreglubíll utan við flóttamannaskýli.
Þýskur lögreglubíll utan við flóttamannaskýli. AFP

Lögreglan í Þýskalandi gerði í dag húsleit á heimilum tveggja manna sem grunaðir eru um að hafa tengsl við „hryðjuverkahóp“ í Sýrlandi.

Húsleitin fór fram í nágrenni borgarinnar Mainz.

Embætti ríkissaksóknara sagði mennina grunaða um að hafa tekið þátt í borgarastríði Sýrlands sem meðlimir í erlendum hópi hryðjuverkamanna, en neitaði að tilgreina um hvaða hóp ræddi.

„Það er ekkert sem bendir til þess að sinni að ákveðin árás hafi verið skipulögð,“ sagði í tilkynningu frá embættinu þar sem jafnframt kom fram að enn væri saksóknari ekki í aðstöðu til að segja til um hvort lögregla hefði handtekið mennina eða lagt hald á eignir af heimilum þeirra.

Der Spiegel segir annan hinna tveggja vera 32 ára gamlan mann sem grunaður er um að vera fyrrverandi leiðtogi öfgahópsins Ríkis íslams og kom sem flóttamaður til Þýskalands síðla árs í fyrra.

Segist miðillinn hafa rætt við manninn fyrir árásirnar og hann hafi neitað öllum tengslum við öfgahópinn.

Í svipaðri aðgerð á fimmtudag handtóku þýskir lögregluþjónar þrjá menn frá Alsír sem grunaðir eru um tengsl við Ríki íslams. Handtökurnar voru framkvæmdar í kjölfar fjölda húsleita víða um Þýskaland, þar á meðal í flóttamannaskýlum þar sem sumir hinna grunuðu bjuggu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert