Sprengingin vakti ótta

Skjáskot af YouTube

Sprenging sem varð í rauðum tvílyftum almenningsvagni í miðbæ Lundúna í morgun vakti ótta vitna sem vissu ekki að um áhættuatriði í nýrri spennumynd væri að ræða.

Vagninn var á leið yfir Lambeth-brúna í nágrenni þinghúss Bretlands þegar efri hæð hans sprakk í loft upp með tilheyrandi hvelli og miklum eldi.

Eitt vitni, rithöfundurinn Sophie Kinsella, sagði börn í garði í nágrenninu hafa farið yfir um við þessa sjón. „Ég fór líka yfir um. Leit mjög raunverulega út,“ sagði hún á Twitter.

Sprengingin var hluti af tökum fyrir kvikmyndina The Foreigner þar sem Pierce Brosnan og Jackie Chan verða í aðalhlutverki. Fyrir marga virðist hún hafa vakið óþægilegar minningar um hryðjuverkaárásir í borginni árið 2005 þar sem rauður tvílyftur almenningsvagn var einmitt sprengdur í loft upp.

John Taylor, sem missti 24 ára dóttur sína, Carrie, í árásunum, spurði hvort áhættuatriðið hefði verið nógu vel hugsað.

„Maður getur fyllilega skilið af hverju fólki hefur verið brugðið við að sjá þetta í dag,“ sagði Taylor. „Þetta virðist sérlega svæsið.“

Brúnni hafði verið lokað og framleiðendur myndarinnar höfðu gefið út viðvörun til íbúa og fyrirtækja á svæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert