Bloomberg íhugar framboð

Michael Bloomberg ásamt Anne Hidalgo, borgarstjóra Parísar.
Michael Bloomberg ásamt Anne Hidalgo, borgarstjóra Parísar. AFP

Milljarðamæringurinn Michael Bloomberg, fyrrverandi borgarstjóri New York, hefur staðfest að hann velti því fyrir sér að bjóða sig fram til forseta. Víst þykir að framboð Bloomberg myndi hrista upp í kosningabaráttunni vestanhafs.

Í samtali við Financial Times gagnrýndi Bloomberg gæði málefnaumræðunnar í yfirstandandi forkosningum. Spurður að því hvort hann hygðist sjálfur bjóða sig fram, sagðist hann velta öllum möguleikum fyrir sér.

Bloomberg sagði umræðuna lágkúrulega og „móðgun við kjósendur“ og að bandarískur almenningur verðskuldaði betra.

Samkvæmt nýlegri fregn New York Times gaf fjölmiðlajöfurinn ráðgjöfum sínum fyrirmæli um að leggja drög að sjálfstæðu framboði en talið er að hann sé reiðubúinn til að verja allt að milljarði dala í kosningabaráttuna.

Bloomberg er metinn á um 39 milljarða Bandaríkjadala. Hann sagði við Financial Times að hann þyrfti að hefja að koma nafni sínu á kjörseðla í mars. „Ég er a hlusta á hvað frambjóðendurnir segja og hvað kjósendur í forkosningunum virðast vera að gera,“ sagði hann.

Margir sérfræðingar telja að framboð Bloomberg myndi hjálpa forsetaefni repúblikana þar sem hann þykir hafa frjálslynda afstöðu varðandi t.d. skotvopnatakmarkanir og umhverfismál.

Það yrði hins vegar á brattann að sækja en könnun sem gerð var í aðdraganda forkosninganna í Iowa benti til þess að aðeins 9% stuðningsmanna repúblikana hugnaðist Bloomberg og 17% stuðningsmanna demókrata.

Donald Trump, sem hefur leitt forsetakapphlaup repúblikana fram til þessa, hefur lýst yfir ánægju sinni með mögulegt framboð Bloomberg, en demókratinn Bernie Sanders er ekki jafn jákvæður og hefur sagt að framboðið myndi staðfesta að Bandaríkin væru að færast frá lýðræði að fámennisstjórn.

Hillary Clinton hefur aftur á móti fullyrt að Bloomberg muni ekki bjóða sig fram nema hún verði ekki forsetaefni demókrata. Það er hins vegar mögulegt að viðskiptajöfurinn verði að taka ákvörðun áður en ljóst liggur fyrir hvort Clinton hreppir hnossið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert