98 árásir, sex dauðsföll

Flestum þætti óhugnanlegt að vita af hákörlum nærri sér en …
Flestum þætti óhugnanlegt að vita af hákörlum nærri sér en árásir og dauðsföll af völdum hákarla eru raunar afar fátíð. mbl.is/Ómar

Metfjöldi hákarlaárása átti sér stað á heimsvísu í fyrra, samtals 98. Í sex tilfellum lést fórnarlambið að sögn George Burgess, framkvæmdastjóra International Shark Attack File við University of Florida.

Mögulegar ástæður fjölgunarinnar er hærri sjávarhiti og aukinn fjöldi strandgesta.

Flestar árásirnar áttu sér stað við strendur Bandaríkjanna eða 59. Í Ástralíu voru árásirnar 18 og 8 í Suður-Afríku. Af árásunum í Bandaríkjunum áttu 30 sér stað í Flórída en eina dauðsfallið vestanhafs átti sér stað við Hawaii.

Að sögn Burgess hefur aukinn sjávarhiti leitt til þess að hákarlar ferðast lengra norður og suður og þá varð El Nino veðurfyrirbærið til þess að fleiri heimsóttu ströndina en í venjulegu ári.

Burgess segir að með tilliti til þessara þátta og aukins mannfjölda sé í raun viðbúið að árásum muni fjölga.

Hvað varðar hættulegasta staðinn virðist franska eyjan Reunion svarið. Þar létust tveir í fyrra en á síðustu fimm árum hafa sjö dáið í 18 árásum við eyjuna.

Þess ber að geta að fleiri deyja árlega af völdum eldinga og bjarnaárása en af völdum hákarla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert