Gestum fækkaði í kjölfar árásanna

Euro Disney rekur Disneyland og Walt Disney Studios.
Euro Disney rekur Disneyland og Walt Disney Studios. AFP

Gestum Disneyland í París hefur fækkað um 8% frá því í nóvember, þegar 130 voru myrtir í hryðjuverkaárásum í borginni. Tekjur Euro Disney námu 337,6 milljónum evra á fyrsta ársfjórðungi (október-janúar) en þær voru 341,5 milljónir árið 2015.

„Við upplifðum mikla eftirspurn fram að atburðum í París 13. nóvember, en í kjölfarið horfðum við upp á afbókanir,“ segir Tom Wolber. Tekjur fyrirtækisins drógust einnig saman vegna ákvörðunar þess að loka görðum sínum í fjóra daga, á meðan þjóðarsorg ríkti í Frakklandi.

Wolber segist hins vegar horfa björtum augum til framtíðar en Disneyland í París er mest sótti skemmtigarður Evrópu og tók á móti 14,8 milljón gestum í fyrra. Lokunin 14.-17. nóvember var sú fyrsta í sögu garðsins, sem opnaði 1992.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert