Jöfnuðu 100 ólöglegar verslanir við jörðu

AFP

Borgaryfirvöld í Moskvu létu jafna fjölmargar litlar verslanir og kaffihús við jörðu í nótt eftir að greint var frá því að starfsemin væri ólögleg. Með aðgerðunum missa þúsundir vinnuna samkvæmt frétt AFP.

Aðgerðirnar hófust um miðnætti í gærkvöldi og eru matvöruverslanir, apótek, blómabúðir og kaffihús meðal þeirra sem urðu fyrir barðinu á jarðýtum stjórnvalda. Að sögn yfirvalda voru 97 hús eyðilögð í nótt en sum þeirra voru nokkurra hæða há. Öll húsin voru byggð í leyfisleysi, mörg þeirra stuttu eftir fall Sovétríkjanna árið 1990. Að mati yfirvalda stafaði íbúum hætta af húsunum sem stóðu flest við eða nálægt lestarstöðvum. 

Margir íbúar hafa sett spurningamerki við aðgerðirnar og ástæðu þess að húsin hafi fengið að standa þar til núna. „Þetta var gert á mjög frumstæðan máta, um 100 fyrirtæki  jöfnuð við jörðu og um 15.000 manns sitja uppi með ekki neitt,“ sagði lögfræðingurinn Olga Kosets í dag.

Sergei Sobyanin, borgarstjóri Moskvu, sagði í dag á samfélagsmiðlum að byggingarnar hefðu verið „ólöglegar“ og „hættulegar“. Sagði hann jafnframt að í staðinn fyrir byggingarnar kæmu „falleg svæði.“

Sobyanin hefur verið borgarstjóri Moskvu frá árinu 2010. Síðan þá hefur hann látið loka næstum því 22.000 smáverslunum.

Um hundrað verslanir voru jafnaðar við jörðu í Moskvu í …
Um hundrað verslanir voru jafnaðar við jörðu í Moskvu í nótt. AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert