Vill endurnýja lagnirnar

Íbúar Flint hafa þurft að reiða sig á vatn á …
Íbúar Flint hafa þurft að reiða sig á vatn á flöskum. AFP

Karen Weaver, borgarstjóri Flint, segir að eina leiðin til að tryggja öryggi íbúa í kjölfar neyðarástands sem skapaðist vegna blýmengunar í drykkjarvatni borgarbúa sé að skipta út 15.000 blýrörum.

„Við höfum orðið fyrir tilfinningalegu áfalli og okkur vantar nýjar lagnir,“ sagði Weaver við blaðamenn í dag. „Það er eina leiðin til að samfélagið treysti því sem er í gangi.“

Embættismenn hafa verið sakaðir um að hafa hunsað illa lyktandi og litað vatn mánuðum saman, á sama tíma og borgarbúar kvörtuðu yfir því að vatnið leiddi til veikinda og athuganir sýndu aukið blýmagn.

Það var ekki fyrr en barnalæknir birti gögn sem sýndu fram á gríðarlega aukningu blýeitrunartilfella meðal barna borgarinnar í október sl. að embættismenn viðurkenndu að vatnið væri ekki drykkjarhæft.

Síðan þá hafa hinir 100.000 íbúar þurft að reiða sig á vatn úr flöskum.

Að sögn borgarstjórans geta framkvæmdir hafist innan mánaðar ef henni tekst að tryggja 55 milljón dala fjárveitingu sem þarf til að skipta út 885 km af lögnum. Hún segir að hægt yrði að ljúka verkinu á innan við ári.

Ríkisstjóri Michigan, sem hefur sætt gagnrýni vegna hneykslisins og neitað að mæta fyrir rannsóknarnefnd, hefur heitið því að taka á málinu en vill ekki skipta út rörunum heldur endurnýja húðina sem á að koma í veg fyrir tæringu.

Weaver telur hins vegar að bæjarbúar muni ekki getað sætt sig við þá niðurstöðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert