„Bestu“ tístin komast á toppinn

Hlutabréf í samfélagsvefnum Twitter hafa hríðfallið.
Hlutabréf í samfélagsvefnum Twitter hafa hríðfallið. Photo/AFP

Stjórnendur Twitter hafa breytt tímalínu samfélagsvefsins með því að leyfa „bestu“ tístunum að komast á toppinn.

Notendur ráða því sjálfir hvort þeir vilja nýta sér þessa þjónustu. „Þú fylgir hundruð manna á Twitter, jafnvel þúsundum, og þegar þú opnar Twitter líður þér kannski eins og þú hafir misst af mikilvægustu tístunum þeirra,“ sagði Mike Jahr, yfirmaður hjá Twitter.

„Frá og með deginum í dag geturðu valið þessa nýjung á tímalínunni sem hjálpar þér að ná í skottið á mikilvægustu tístunum frá fólkinu sem þú fylgir.“

Þessi nýjung er byggð á liðnum „á meðan þú varst í burtu“ sem Twitter kynnti til sögunnar fyrir um ári síðan þar sem notendur gátu séð vinsælt efni sem það hafði misst af þegar var ekki að skoða síðuna.

„Þegar þú opnar Twitter munu tístin sem þú ert líklegastur til að hafa áhuga á birtast efst á tímalínunni. Þau eru nýleg og eru í öfugri tímaröð,“ bætti Jahr við.

Hlutabréf hafa fallið 

Hlutabréf í Twitter hafa fallið mikið að undanförnu og er nýjungin liður í því að fjölga notendum vefsins og einnig tilraun til að fá fólk til að eyða þar meiri tíma.

Alls nota  320 milljónir manna Twitter víðsvegar um heim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert