Minnst 56 létust í sjálfsmorðsárás

Mynd frá 2. nóvember úr Dikwa flóttamannabúðunum.
Mynd frá 2. nóvember úr Dikwa flóttamannabúðunum. AFP

Tvær konur frömdu sjálfsmorðssprengjuárásir í flóttamannabúðum í Nígeríu í gærmorgun, þar sem fólk á flótta undan Boko Haram hryðjuverkasamtökunum dvelur. Minnst 56 létust en fórnarlömbin, mestmegnis konur og börn, biðu í röðum eftir því að vera úthlutað mat. Tugir til viðbótar særðust, margir alvarlega.

Þriðja konan hætti við að sprengja sig í loft upp og gaf sig fram við yfirvöld eftir að hún áttaði sig á því að ættingjar hennar voru í búðunum.

Dikwa flóttamannbúðirnar sem um ræðir eru í Borno héraði í norðausturhluta Nígeríu. Þær hýsa um 50.000 manns sem hafa flúið heimili sín eftir að Boko Haram náðu völdum á svæðinu en hersveitir Nígeríu hafa sótt gegn samtökunum að undanförnu. Samtökin mega sín lítils í beinum átökum við herinn en hafa í auknum mæli gert árásir á óbreytta borgara.

Á sex árum hafa árásir Boko Haram kostað um 20.000 manns lífið og hrakið tvær milljónir frá heimilum sínum.

Frétt BBC

Árásin átti sér stað þar sem fólk beið eftir matargjöfum.
Árásin átti sér stað þar sem fólk beið eftir matargjöfum. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert