Söfnunin tók gríðarstökk eftir sigurinn

Sanders fagnar sigrinum á þriðjudagskvöld ásamt konu sinni og stuðningsmönnum.
Sanders fagnar sigrinum á þriðjudagskvöld ásamt konu sinni og stuðningsmönnum. AFP

Öldungadeildarþingmaðurinn Bernie Sanders safnaði rúmum fimm milljónum Bandaríkjadala á aðeins 18 klukkutímum í kjölfar sigurs hans í forvali demókrata í New Hampshire. Hið gríðarlega peningamagn þykir benda til þess að hann geti dregið kosningabaráttuna við Hillary Clinton á langinn.

Nánar tiltekið safnaði Sanders 5,2 milljónum dala eða sem nemur um 660 milljónum íslenskra króna. Söfnunin tók strax mikið stökk um leið og ljóst varð að hann sigraði Clinton með 60 prósent atkvæða gegn 38 prósentum hennar.

Hreykir sér af fjölda smárra framlaga

Sanders, sem lýst hefur sjálfum sér sem demókratískum sósíalista og er óflokksbundinn fulltrúi Vermont-ríkis í öldungadeildinni, hreykir sér af því að hafa fengið fjárframlög frá meira en þremur milljónum Bandaríkjamanna en ekki einhverjum völdum milljarðamæringum, sem hann sakar um að reyna að kaupa frambjóðendur í kosningunum.

Sanders safnaði meira en tuttugu milljónum Bandaríkjadala í janúarmánuði en meðalfjárframlagið nemur um 27 dölum. Í nýlegum pósti frá framboði Clintons kom fram að hana hefði vantað rúmar fimm milljónir dala til að jafna söfnun Sanders í mánuðinum.

Frétt mbl.is: Fleiri konur kusu Sanders en Clinton

Sanders fundaði í gær með prestinum Al Sharpton, sem hefur …
Sanders fundaði í gær með prestinum Al Sharpton, sem hefur lengi þótt áhrifamaður í samfélagi þeldökkra vestanhafs. AFP

Hvatti til fjáröflunar í beinni

Orsakir þessa mikla stökks sem söfnunin tók í kjölfar sigursins má þó líka rekja til sjálfrar sigurræðunnar, sem Sanders hélt í beinni útsendingu eftir að ljóst varð í hvað stefndi.

„Ég ætla að halda fjáröflun hér og nú, þvert yfir Ameríku,“ sagði Sanders við fjöldann sem saman var kominn. Hvatti hann alla til að leggja fram fé á netinu og „hjálpa okkur að safna peningnum sem við þurfum til að geta haldið áfram að berjast í Nevada, Suður-Karólínu og handan þeirra.“

Sérfræðingar segja að Sanders eigi fyrir höndum torvelda baráttu við stjórnmálaaflið Clinton um útnefningu flokksins. En skilaboð hans, um að berjast gegn ójöfnuði og krafan um að milljarðamæringar geti ekki veitt ótakmörkuðu fé til valinna frambjóðenda, hafa fundið góðan hljómgrunn í kjósendum vestanhafs og einkum hjá ungu kynslóðinni.

Draga framboð sitt til baka

Forvalskosningarnar í New Hampshire höfðu einnig í för með sér afleiðingar hinum megin gangsins, hjá repúblikönum. Chris Christie ríkisstjóri New Jersey tilkynnti þannig í gær að hann myndi binda enda á framboð sitt til útnefningar flokksins.

„Ég yfirgef kosningabaráttuna án einnar únsu af eftirsjá,“ sagði Christie á Facebook í gær, en hann lenti í sjötta sæti í kosningunum með aðeins 7,4% atkvæða. Áður hafði hann lent í tíunda sæti í Iowa-ríki.

„Mun halda áfram að ferðast um landið“

Þá dró Carly Fiorina einnig framboð sitt til baka, en sem fyrrverandi forstjóri tölvurisans Hewlett-Packard hafði hún haldið því fram að hún væri hæfust til að takast á við Hillary Clinton um forsetastólinn.

„Þó ég hætti framboði mínu í dag þá mun ég halda áfram að ferðast um landið og berjast fyrir þá Bandaríkjamenn sem neita að sætta sig við hvernig hlutirnir eru og þetta jafnvægisástand sem gengur ekki lengur fyrir þá.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert