Fimm hæða bygging hrundi

Frá Istanbúl.
Frá Istanbúl.

Fimm hæða bygging hrundi í tyrknesku borginni Istanbúl nú fyrir skömmu.

Frá þessu greinir BBC sem vísar í tyrkneska miðla og segir að óttast sé að fólk sitji fast í rústum hennar.

Byggingin er nálægt Istiklal verslunargötunni. Kaffihús er á jarðhæð byggingarinnar en BBC segir óljóst hvort einhver hafi verið inni þegar byggingin féll.

Slökkviliðsmenn eru komnir á vettvang en orsakir slyssins eru enn óljósar.

Myndir sem sjónarvottar hafa tekið á vettvangi sýna mikið rykský.

Al Jazeera segir fylkisstjóra Istanbúl, Vasip Sahin, hafa sagt fjölmiðlum að „samkvæmt forrannsóknum er enginn inni.“

Hann bætti við að fólk í nágrenni byggingarinnar hafi áttað sig á því að hún væri að fara að hrynja vegna hávaða og varað fólk innan hennar við. „Von okkar er að enginn hafi verið inni.“

Borgarstjórinn Misbah Demircan sagði „Fólk á bílastæðinu fann hristinginn og lét fólk rýma svæðið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert