Gera skuldina upp með bænum

Kirkjan gat aðeins greitt helming fjárins. Mynd úr safni.
Kirkjan gat aðeins greitt helming fjárins. Mynd úr safni.

Biskupsdæmi innan rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar hefur ákveðið að gera upp skuld sína með því að lofa að biðja fyrir heilsu lánardrottna sinna.

Biskupsdæmið, sem er í borginni Nizhny Novgorod, náði að safna upp skuld að andvirði 916 þúsund rúblna, eða sem nemur rúmri milljón íslenskra króna, við verktakafyrirtæki sem hannaði hitalagnir fyrir kirkjuna.

En þegar kirkjan gat aðeins greitt helming fjárins neyddist fyrirtækið til að grípa til aðgerða. Heppilega fyrir kirkjuna eru eigendur fyrirtækisins staðfastir iðkendur trúarinnar og hafa aðilarnir tveir því náð samningum um afskriftir sem nema 300 þúsund rúblum auk þess sem sektir verða slegnar af, í skiptum fyrir bænir.

Þegar farnir að njóta ávaxtanna

Þetta er í fyrsta skipti sem slíkt samkomulag er gert í Rússlandi, herma heimildir fréttastofu BBC. Hugmyndin er sögð hafa runnið undan rifjum eigendanna. „Við vorum steinhissa,“ segir fulltrúi kirkjunnar. „Þeir skrifuðu meira að segja samningstextann sjálfir.“

Talsmaður fyrirtækisins segir eigendurna ekki ætla sér að athuga hvernig hin hlið samningsins verði uppfyllt. 

„Við virðum allir biskupsdæmið og iðkum allir trúna,“ segir talsmaður fyrirtækisins í samtali við rússneska miðilinn Gazeta. „Það verður á þeirra samvisku ef þeir uppfylla hann ekki, en við treystum þeim og höfum þegar notið ávaxta bæna þeirra, þar sem allar vísitölur um hagvöxt fyrirtækisins eru á uppleið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert