Klámsíða kemur hvölum til bjargar

Búrhvalur sést hér strandaður á Englandi. Sjónir klámsíðunnar berast einkum …
Búrhvalur sést hér strandaður á Englandi. Sjónir klámsíðunnar berast einkum til þessarar tegundar sökum engilsaxnesks heitis hennar. AFP

Vinsæl klámsíða hefur hafið óvenjulega herferð í því skyni að vekja athygli á réttindum stærstu spendýra hafsins, hvala. Fyrir hver tvö þúsund áhorf á vefsíðunni verður eitt sent gefið til Moclips Cetological Society, góðgerðasamtaka sem vilja enda veiðar á hvölum.

Það er síðan pornhub.com sem tók upp á þessu. Upphæðin kann ekki að virðast há við fyrstu sýn en þegar tekið er með í reikninginn að á hverjum degi er horft á tugi milljóna myndbanda á síðunni þá er ljóst að átakið er til þess fallið að safna talsverðri fjárhæð.

Átakið stendur yfir frá 8.-29. febrúar. Þegar þessi frétt er rituð hefur verið horft á 1.259.709.683 klámmyndbönd til styrktar hvölum. "Búrhvalir, hnúfubakur, við elskum þá alla! Svo hjálpið okkur við að bjarga blíðum risum hafsins!" segir á vefsíðu styrktarverkefnisins. 

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem klámsíðan notar vinsældir sínar til góðs. Árið 2014 hélt hún sams konar átak þar sem hún hét því að planta trjám fyrir hvern tiltekinn fjölda áhorfa. Gekk sú herferð vel og var því ákveðið að nota mátt fjöldans til hjálpar hvölunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert