Páfuglar plága á ökrum?

Indverskur karlpáfugl.
Indverskur karlpáfugl. Wikimedia/Jebulon

Stjórn Goafylkis á Indlandi hefur lagt til að páfuglar, sem eru auðþekktir af íburðarmiklum stélfjöðrum sínum, verði flokkaðir sem meindýr ásamt nokkrum tegundum af öpum, villisvínum og villtum vísundum. Páfuglarnir eru sagðir leggjast á akra.

Skóglendi hefur dregist saman í Goa og vistvæn svæði dýranna dregist saman meðfara því. Dýr hafa því í auknum mæli sótt í byggðir og akra en landbúnaðarráðherra fylkisins sagði í viðtali við indverska fréttastofu að sumir bændur hefðu kvartað yfir ágangi fuglanna á akra á hæðóttum svæðum.

Páfuglar njóta verndar skv. dýraverndunarlögum í Indlandi en fylkið mun leitast við að fá undanþágu frá þeirri vernd þar sem fuglinn sé skaðvaldur.

Dýraverndunarsinnar hafa gagnrýnt áætlanirnar. BBC hefur eftir Poorva Joshipura: „Ef Goa ætlar sér að vera áfram á túristakortinu þá ætlast fólk til þess að það verði paradís fyrir dýrin líka.“

Tillögurnar nú koma í kjölfar umdeildra breytinga á flokkun kókoshnetutrjáa í flokk pálmatrjáa, sem njóta ekki þeirrar verndar sem kókoshnetutrén gerðu áður. Umhverfisverndarsinnar óttast að þetta verði til þess að mikill fjöldi trjáa verði nú felldur í því skyni að ryðja svæði fyrir uppbyggingu.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert