Ógnvænleg tíðni árása

Sýrlenskir menn bera slasaða úr húsarústum eftir sprengjuárás í Aleppo …
Sýrlenskir menn bera slasaða úr húsarústum eftir sprengjuárás í Aleppo í dag. AFP

UNICEF og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) lýsa yfir hneykslun á loftárásinni gegn Al Quds spítalanum í Aleppo. Meðal þeirra sem létust voru tveir læknar, þar á meðal einn af fáum barnalæknum sem eftir eru í borginni, þrír bráðaliðar og fjöldi sjúklinga, þar á meðal börn.

„Við erum hneyksluð á ógnvænlegri tíðni árása á heilbrigðisstarfsfólk og aðstöðu þess í Sýrlandi,“ segir í yfirlýsingu UNICEF og WHO.

„Fyrir fáeinum dögum var kvensjúkdómalæknir á leið heim, eftir að hafa sinnt slösuðum borgurum á heilsugæslu sem UNICEF styður, myrtur með sprengjuvörpu. Þessar árásir minna okkur á þá gríðarlegu erfiðleika og hættur sem sýrlenskir heilbrigðisstarfsmenn horfast í augu við dag hvern. Þessir starfsmenn verðskulda meira en aðdáun okkar. Þeir verðskulda aukna vernd.“

Í yfirlýsingunni segir að árás á heilbrigðisstarfsfólk og starfsaðstöðu þeirra, sem og það að koma í veg fyrir heilbrigðisþjónustu og flutninga á tækjum og vistum fyrir heilbrigðisgeirann í Sýrlandi sé ekki aðeins brot gegn alþjóðalögum heldur svipti það fjölskyldur og samfélög nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu þegar þörfin er mest.

„UNICEF og WHO hvetja alla deiluaðila að binda endi á allar árásir á heilbrigðisaðstöðu, starfsfólk og sjúkrabíla og leyfa ráðstöfun heilbrigðisþjónustu til hinna fjölmörgu saklausu borgara sem eru í sárri þörf. Þúsundir lífa eru að veði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert