Vilja ekki leyfa Gucci pappírstöskur

Pappírs eftirlíkingar af Gucci töskum í sérverslun í Hong Kong …
Pappírs eftirlíkingar af Gucci töskum í sérverslun í Hong Kong með vörur fyrir handanheimavistina. AARON TAM

Ítalska tískuhúsið Gucci hefur varað verslanir í Hong Kong við að hafa á boðstólnum Gucci-legar pappírs handtöskur og annan slíkan varning sem ætlaður er sem fórnargjafir til forfeðranna.

Rík hefð er fyrir því í Hong Kong að fjölskyldur kaupi og brenni pappírslíkön af hlutum sem látinn ástvinur kunni að meta og sem hann gæti viljað njóta í handanheima vistinni.

Í borginni er því að finna fjölda verslana sem sérhæfa sig í pappírslíkönum af öllu frá pappírsgervitönnum, pappírsspjaldtölvum, -skyrtum, -bifreiðum með einkabílstjóra, -makkarónum, -herrasetrum og svo búntum af fölskum peningaseðlum.

Það voru þó eftirlíkingar af töskum og öðrum munum merktum Gucci sem vöktu athygli tískuhússins.

„Við virðum hugmyndina sem þarna liggur að baki og treystum því að verslunareigendurnir hafi ekki ætlað sér að brjóta á vörumerkjarétti Gucci,“ segir í yfirlýsingu sem AFP-fréttastofan fékk senda frá Gucci á föstudag. 

„Þess vegna var verslununum sent bréf til að upplýsa þær um vörunar og biðja þær að hætta að selja þessa hluti.“ Tekið var sérstaklega fram að ekki væri verið að hóta lögfræðiaðgerðum eða fara fram á skaðabætur.

„Gucci þarf að vernda hugverkarétt sinn og gerið það á öllum sviðum og um heim allan.“

Vörur frá Gucci eru með eftirsóttustu vörum á markaði í Kína, að hluta til stöðutáknsins sem fylgir þekktu lógói fyrirtækisins.

Frá því að fyrsta Gucci verslunin var opnuð í Hong Kong 1974, þá hefur tískuhúsið opnað 11 nýjar verslanir í borginni.

„Þessir hlutir eru ekki notaðir af lifandi einstaklingum. Þeir eru bara notaðir til að minnast forfeðranna, sem þá geta notað þá,“ hefur AFP eftir To Chin-sung, eiganda sérverslunar með pappírsvörur.

„Þetta er ekki nákvæm eftirlíking, þeim finnst þetta bara vera mjög líkt.“ To selur pappírstöskur sem svipar til Gucci taskanna. Hann var ekki enn búinn að fá bréf frá tískuhúsinu, en sagði við AFP: „Ef þeir skrifa okkur þá svörum við þeim með glettni, með því að segja að mögulega getum við hjálpað til með því að senda bréfið til handanheima og sjá hvernig því er tekið þar.“

Þúsundir ganga upp í kirkjugarðana í hæðum Hong Kong tvisvar á ári til að hreinsa grafir forfeðra sinna og brenna þar pappírsgjafir svo hinir látnu öðlist hugarró.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert