Klukkunni flýtt um hálftíma í Venesúela

Nicolas Maduro forseti Venesúela heilsar stuðningsmönnum í 1. maí göngu.
Nicolas Maduro forseti Venesúela heilsar stuðningsmönnum í 1. maí göngu. JUAN BARRETO

Venesúelabúar misstu hálftíma svefn sl. nótt, þegar klukkunni var flýtt um hálftíma til að spara rafmagn samkvæmt fyrirskipun forsetans, Nicholas Maduro.  

Klukkan 2.30 í nótt að staðartíma þá var klukkunni flýtt um 30 mínútur til að hálftími af dagsljósi bætist við vinnudag almennings. Tilkynnt var um klukkubreytinguna um miðjan apríl sl., en hún er hluti af aðgerðum stjórnvalda til að stemma stigu við rafmagnsskorti í landinu.

Stjórnvöld í landinu hafa einnig tilkynnt að raf­magn verði tekið af átta sýsl­um í land­inu í fjór­ar klukku­stund­ir á dag í næstu vik­urn­ar. Þá munu opinberir starfsmenn einungis vinna tvo daga í viku og skólum verður lokað á föstudögum, en þetta er nýj­asta út­spil rík­is­ins til að reyna að ná bönd­um á efna­hagskrís­una sem geis­ar í land­inu. 

Rafmagnsleysið olli uppþotum í Maracaibo, annarri stærstu borg Venesúela nú í vikunni.

Myndband var birt á Twitter sem sýnir Jesus Escalona, manninn sem ber ábyrgð á staðartímanum í Venesúela, endurstilla klukkuna á Cagical stjörnuathugunarstöð hersins í Caracas.

„Nú eiga Venesúelabúar sé hálftíma lengri framtíð,“ sagði Maduro í 1. maí ræðu sinni við forsetahöllina.

Það var forveri Maduros, Hugo Chavez, sem tók upp fyrri tímaskipun árið 2007, er hann kvaðst ekki vilja að börn þyrftu að ganga í skólann í myrkri. Chavez lést árið 2013.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert