Airbnb bannað í Berlín

Yfirvöld í Berlín hafa bannað útleigu á síðum eins og …
Yfirvöld í Berlín hafa bannað útleigu á síðum eins og Airbnb. Wikipedia/Arne Hückelheim

Frá og með deginum í gær er útleiga á íbúðum í gegnum vefinn Airbnb og sambærilegar síður bönnuð í Berlín, höfuðborg Þýskalands, nema eigandi íbúðarinnar hafi gistileyfi eins og gistihús eða hótel. Geta eigendur sem ekki fara að þessum tilmælum átt von á sekt upp á 14 milljónir króna.

Frá árinu 2009 til 2014 hækkaði leiguverð í Berlín um 56%, en borgin hefur notið vaxandi vinsælda ferðamanna undanfarin ár. Á síðasta ári voru gistinætur í borginni 30,2 milljónir, en áætlað er að seldar gistinætur í gegnum Airbnb og sambærilegar síður sé um 6,1 milljón.

Lögin sem um ræðir voru samþykkt fyrir tveimur árum síðan en tóku ekki gildi fyrr en í gær. Á vef Guardian er haft eftir yfirmanni skipulagsmála í Berlín að lögin séu nauðsynleg og skynsamleg leið til að berjast gegn húsnæðisskorti í Berlín.

Þau banna þó ekki alla útleigu, því fólk mun áfram geta leigt út herbergi ef stærð þeirra er undir helmingi af stærð íbúðarinnar sem um ræðir. Þá geta íbúðaeigendur geta sótt um leyfi til að leigja út íbúðirnar í þessum tilgangi, en þá þurfa að fylgja með skýringar á því af hverju þeir þurfa að standa í skammtímaleigu. Líklegt þykir að mörgum slíkum umsóknum verði hafnað.

Bannið er til komið vegna óánægju íbúa Berlínar með hækkandi leiguverð og ónæðis vegna ferðamanna. Leiguverð snertir fleiri íbúa Berlínar en margra annarra stórborga þar sem hlutfall i leigjenda er hærra í Þýskalandi en víðast hvar í hinum vestræna heimi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert