Fríverslun grefur undan öryggi

Maður blaðar í skjölunum sem Grænfriðungar láku um viðræður evrópskra …
Maður blaðar í skjölunum sem Grænfriðungar láku um viðræður evrópskra og bandarískra stjórnvalda um fríverslunarsamning. AFP

Gögn um fyrirhugaðan fríverslunarsamning Bandaríkjanna og Evrópusambandsins eru sögð sýna að hagsmunir fyrirtækja verði settir ofar umhverfinu, aðgerðum í loftslagsmálum og öryggi neytenda. Viðskiptastjóri ESB segir ranghugmyndir ríkja um samninginn. Gögnin endurspegli aðeins samningsmarkmið aðila.

Grænfriðungar birtu í dag leyniskjöl um fríverslunarsamninginn (TTIP) sem yrði umfangsmesti viðskipta- og fjárfestingasamningur í heimi. Samtökin fullyrða að þau sýni að áhrif samningsins verði alvarleg fyrir 800 milljónir íbúa Bandaríkjanna og Evrópusambandsríkja. Um meiriháttar tilfærslu á völdum frá almenningi til stórfyrirtækja sé þar að ræða.

Þannig er samningurinn sagður kveða á um stofnun sérstakt dómstóls fyrir fjárfesta sem myndi gera alþjóðlegum fyrirtækjum kleift að stefna ríkisstjórnum ef þau telja að stefna þeirra hamli frjálsri samkeppni.

Fulltrúar Grænfriðunga segja að gögnin sýni að umhverfisvernd verði kastað fyrir róða. Þannig sé hvergi minnst á alþjóðleg markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem veldur loftslagsbreytingum á jörðinni.

„Þessi gögn sem var lekið staðfesta það sem við höfum lengi sagt að TTIP myndi setja fyrirtæki í öndvegi í stefnumótun á kostnað umhverfisins og lýðheilsu,“ segir Jorgo Riss, framkvæmdastjóri Grænfriðunga í Evrópu.

Cecilia Malmström, viðskiptastjóri ESB, segir skjölin hins vegar aðeins sýna samningsmarkmið hvors aðila um sig og ekkert annað. Það ætti ekki að koma á óvart því að Evrópusambandið og Bandaríkin hafi ólíkar skoðanir á ýmsum málum.

„Það krefst þess að vera sagt aftur og aftur: enginn viðskiptasamningur ESB mun nokkru sinni draga úr vernd fyrir neytendur, matvælaöryggi eða umhverfið,“ segir Malmström.

TTIP hefur vakið töluverðar deilur og eru margir Evrópubúar sagðir tortryggnir á samninginn. Viðræður um hann hafa gengið hægt en bæði stjórnvöld í Bandaríkjunum og Evrópuríkjum vilja ganga frá honum áður en Barack Obama yfirgefur embætti forseta um áramótin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert