Mikill eldsvoði í Svíþjóð

Efsta hæð hússins var alelda um nokkurt skeið.
Efsta hæð hússins var alelda um nokkurt skeið. Skjáskot af SVT

Hátt í 60 slökkviliðsmenn börðust í fleiri klukkutíma við mikinn eldsvoða sem braust út í fjölbýlishúsi í austurhluta Jönköping í Svíþjóð í gærkvöldi. Fjórir voru fluttir á sjúkrahús með reykeitrun og allar íbúðir byggingarinnar, með samtals 156 íbúum, voru rýmdar.

Tilkynnt var um eldinn laust eftir klukkan átta í gærkvöldi að staðartíma og voru slökkviliðsmenn enn að störfum klukkan sjö í morgun, en hafði þá ekki enn náðst stjórn á eldinum.

Eldurinn kom upp í íbúð á fjórðu hæð í Nygatan í Huskvarna hverfinu. Hann breiddist fljótt upp á efri hæðir hússins og læsti sig í þak þess. Lengi vel var öll efsta hæð þess alelda.

Slökkviliðsstjórinn Göran Melin sagði í samtali við SVT í morgun að nú væri áhersla lögð á að halda eldinum í skefjum og hindra að hann kæmist niður ytri veggi byggingarinnar.

Ekkert er enn komið fram um hvernig kviknaði í en rannsókn á að hefjast í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert