Stórbruni ógnar borg í Kanada

Eldarnir hafa logað frá því á sunnudag. Síðan þá hefur …
Eldarnir hafa logað frá því á sunnudag. Síðan þá hefur ástandið einfaldlega versnað. AFP

Yfirvöld í Fort McMurray í Kanada eiga í miklum erfiðleikum með að hemja elda sem ógna borginni, en um 80.000 íbúar hafa þegar flúið heimili sín. Óttast er að ástandið eigi eftir að versna sökum hvassviðris og hita.

Eldarnir stefna nú í átt að miðborg Fort McMurray, sem er í Alberta-héraði landsins. Fram kemur á vef BBC að um 80% heimila í einu hverfi borgarinnar hafi orðið eldi að bráð. Búið er að kalla út aukamannskap til að berjast við eldana sem ná yfir 26,5 ferkílómetra svæði. Einnig er búið að óska eftir aðstoð hersins.

Ekki hafa borist fregnir af fólki sem hefur brennst eða slasast. 

Eldsupptökin urðu suðvesetur af borginni sl. sunnudag. Slökkviliðsmenn töldu sig hafa náð tökum á eldinu í gær en þegar það fór hvessa misstu þeir stjórn á ástandinu. 

Bernie Schmitte, sem hefur yfirumsjón með landbúnaði og skógrækt í Alberta, segir að það versta sé ekki yfirstaðið. „Við stöndum frammi fyrir miklum hlýindum, litlum raka og miklu hvassviðri.“

Darby Allen, slökkviliðsstjóri Fort McMurray, segir að eldar logi enn í skóglendi og hann óttast að vindáttin muni breytast. „Eyðileggingin gæti orðið mun meiri, því miður,“ segir hann. 

„Þetta er viðbjóðslegur, ljótur eldur og hann sýnir enga miskunn. Samfélagið mun skaðast mikið. Þetta mun halda áfram. Það mun taka okkur langan tíma að jafna okkur eftir þetta.“

Rýma heila borg vegna bruna

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert