Vísað frá borði vegna hnetuofnæmis

Af Wikipedia

Fjölskylda frá San Francisco, sem ætlaði að fljúga frá Provo í Utah, segir að sér hafi verið vísað frá borði vegna hnetuofnæmis.

Fjölskyldufaðirinn segir í samtali við CNN að 2 ára sonur hans sé með alvarlegt hnetuofnæmi. Hann segir að fjölskyldan hafi beðið flugliðana um borð í vel Allegiant Air-flugfélagsins að bera ekki fram hnetur í námunda við barnið til að draga úr líkum á því að hann sýndi ofnæmisviðbrögð.

Einn flugliði tók beiðninni vel og bað nærstadda farþega um að sleppa því að fá sér hnetur. Annar flugliði hvatti fjölskylduna hins vegar til þess að hætta við flugið.

Fjölskyldufaðirinn segir í samtali við CNN að móðir barnsins hafi sagt flugliðanum að þau væru með adrenalín-penna á sér, fengi barnið ofnæmisviðbrögð. Þau ætluðu ekki að fara frá borði enda gerðu þau sér grein fyrir áhættunni.

En svo blandaði þriðji flugliðinn sér í málið og færði fjölskyldunni þau skilaboð frá flugstjóranum að þau ættu að fara frá borði. Sagði flugliðinn að þetta væri gert samkvæmt tilmælum heilbrigðisstarfsmanns.

Fjölskyldan fór því frá borði.

Talsmaður Allegiant Air segir við CNN að fjölskyldan hafi gert flugliðum grein fyrir því að barnið væri með alvarlegt hnetuofnæmi. Í kjölfarið hafi verið haft samband við „þriðja aðila“ til að fá ráðleggingar varðandi öryggi farþega um borð.

Niðurstaðan hafi verið sú að ráðleggja fjölskyldunni að fljúga ekki í þessu tiltekna flugi, segir talsmaður flugfélagsins. Fjölskyldunni hafi verið boðnir flugmiðar með annarri vél.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert