Dómstóll staðfestir handtökuskipunina

Julian Assange hefst enn við í sendiráði Ekvador í Lundúnum.
Julian Assange hefst enn við í sendiráði Ekvador í Lundúnum. AFP

Dómstóll í Stokkhólmi hefur ákveðið að viðhalda evrópskri handtökuskipun á hendur Julian Assange, stofnanda Wikileaks, en lögmaður hans hafði farið fram á að hún yrði ógilt. Handtökuheimildin tengist nauðgun sem Assange hefur verið sakaður um.

Það var niðurstaða dómstólsins að Assange væri enn grunaður um nauðgun og það væri enn hætta á að hann myndi reyna að komast undan réttvísinni. Per Samuelsson, einn lögmanna Assange í Svíþjóð, sagði á ákvörðuninni yrði áfrýjað.

„Ég ræddi við hann rétt í þessu og hann, líkt og við, er ekki hissa en afar gagnrýninn og reiður,“ sagði Samuelsson í samtali við AFP.

Handtökuskipunin var gefin út af sænska ákæruvaldinu, en það hefur freistað þess að yfirheyra Assange í tengslum við hina meintu nauðgun, sem er sögð hafa átt sér stað 2010.

Assange, 44 ára Ástrali, hefur hafst við í sendiráði Ekvador í Lundúnum frá því í júní 2012, en hann óttast að verða framseldur frá Bretlandi til Svíþjóðar og þaðan til Bandaríkjanna.

Hinn 5. febrúar sl. komst nefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna að þeirri niðurstöðu að dvöl Assange í sendiráðinu jafngilti varðhaldi af hálfu Svíþjóðar og Bretlands. Sænski dómstóllinn var hins vegar ósammála.

Hið meinta brot fyrnist árið 2020.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert