Sjö drukkna undan ströndum Líbíu

Að minnsta kosti sjö drukknuðu þegar yfirfullur bátur fór á hliðina undan ströndum Líbíu í dag. Samkvæmt ítalska sjóhernum var 500 bjargað en aðgerðir stóðu enn yfir í hádeginu.

Myndir náðust af bátnum þegar hann fór á hliðina, en þá höfðu skipverjar á eftirlitsskipinu Bettica komið auga á hann. Áhöfnin kastaði björgunarvestum til fólksins en annað herskip sem var nærri ræsti út þyrlu og björgunarbáta.

Um 5.600 var bjargað á Miðjarðarhafi á mánudag og þriðjudag, en fjöldinn telur nú 40.000 frá áramótum.

Þjóðerni fólksins sem bjargað var í dag liggur ekki fyrir né þeirra sem létust. Flestir flóttamenn sem koma til Ítalíu koma frá Afríku, sunnan Sahara.

Embættismenn segja enn engin merki þess að flóttafólk frá Mið-Austurlöndum leiti í auknum mæli til Evrópu gegnum Líbíu, eftir að leiðin um Tyrkland var torvelduð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert