Tölvupósturinn ásækir Clinton enn

Hillary Clinton.
Hillary Clinton. AFP

Tölvupóstur sem Hillary Clinton sendi úr persónulegu netfangi sínu í tengslum við störf sín sem utanríkisráðherra Bandaríkjanna veldur henni enn vandræðum en rannsóknarskýrsla var gefin út í dag þar sem fram kemur að hún hafi ekki óskað eftir leyfi til þess að fjalla um opinber málefni í gegnum persónulegt netfang sitt.

Fram kemur í skýrslunni samkvæmt frétt AFP að ef Clinton hefði óskað eftir slíku leyfi hefði það hins vegar ekki verið veitt vegna ótta um að óviðkomandi gæti komist yfir viðkvæm opinber gögn.

Fram kemur í fréttinni að tölvupóstmálið sé líklegt til þess að valda Clinton áframhaldandi vanda en bandaríska alríkislögreglan FBI hefur til rannsóknar hvort notkun hennar á persónulegu netfangi hafi leitt til þess að ríkisleyndarmál hafi lent í höndum óviðkomandi eða hætta skapast á því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert