Enn einn harmleikurinn á Miðjarðarhafinu

Frá björgunaraðgerðum á Miðjarðarhafinu í vikunni.
Frá björgunaraðgerðum á Miðjarðarhafinu í vikunni. AFP

Talið er að um 30 flóttamenn hafi látið lífið eftir að skip þeirra fór á hliðina á Miðjarðarhafinu í dag skammt frá ströndum Líbýu. Sjötíu og sjö flóttamönnum var bjargað af björgunarsveitum og ítölsku landhelgisgæslunni.

Um leið og neyðarkall barst frá lúxemborgskri landhelgisflugvél fóru öll nærliggjandi björgunarskip á vettvanginn sem var um 65 km frá ströndum Líbýu. 

Ekki er liðinn meira en dagur frá því að 562 flóttamönnum var bjargað úr svipuðum aðstæðum á Miðjarðarhafinu. Var það ítalska landhelgisgæslan sem var þar að störfum. Aðeins í þessari viku er talið að um 6 þúsund flóttamenn hafi ferðast yfir Miðjarðarhafið til Suður-Evrópu. 

Eftir samkomulag Evrópusambandsins við Tyrkland var ákveðið að takmarka fjölda flóttamanna sem tekið var við í Grikklandi. Flóttamannayfirvöld Evrópusambandsins telja því að flestir þeir sem reyna að komast yfir Miðjarðarhafið muni nú reyna að fara til Ítalíu. 

„Alls teljum við að á milli 20 og 30 manns hafi látið lífið þegar skipið fór á hliðina,“ segir skipstjórinn Antonello de Renzis Sonnino sem er talsmaður Sophia-starfshópsins sem vinnur að því að takmarka fjölda skipa sem smygla fólki frá Norður-Afríku til Evrópu. Starfsópurinn var settur á laggirnar af Evrópusambandinu. 

Spænska freigátan Reina Sofia aðstoðaði við björgunaraðgerðina. Áhöfn freigátunnar henti björgunarvestum og bátum til þeirra sem voru í sjónum.

Sjá frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert