Varð fyrir eldingu og lést

AFP

Karlmaður á fimmtugsaldri lést er hann varð fyrir eldingu í suðurhluta Póllands í dag. Hann var á leið niður fjallið Babia Góra þegar eldingunni laust niður í hann.

Þá slösuðust þrír aðrir í sama héraði vegna þrumuveðursins og jafnframt drukknaði einn maður, 61 árs að aldri, í flóði, að sögn pólskra fjölmiðla.

Mikið þrumuveður hefur gengið yfir hluta Evrópu í dag. Yfir þrjátíu manns voru til að mynda fluttir á sjúkrahús eftir að eldingu laust niður í knattspyrnuvöll í bænum Hoppstadten í Þýskalandi. Þar öttu börn kappi. 

Þrír slösuðust alvarlega, þar á meðal dómari leiksins.

Þá laust eldingu einnig niður í almenningsgarði í París, höfuðborg Frakklands. Ellefu manns, þar af átta börn, slösuðust. Eitt barn er í alvarlegu ástandi, að því er segir í frétt Guardian. Fólkið leitaði skjóls undir tré þegar það fór að rigna, en ekki vildi betur til en að eldingin lenti í trénu.

Frétt mbl.is: Yfir 40 manns slösuðust í eldingum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert