Sjötíu og níu ára nauðlenti án skrúfu

Skjáskot/ The Local

Eldri borgaranum Paul Garstad tókst á fimmtudag að nauðlenda á flugvellinum í Stavanger eftir að skrúfan flaug af eins hreyfils flugvél hans.

„Ég heyrði högg og svo slóst skrúfan á,“ sagði Garstad, sem er 79 ára og reyndur flugmaður og flugkennari, í samtali við Stavanger Aftenblad en hann slapp ómeiddur þrátt fyrir dramatíska lendingu.

Garstad er lýst sem gosögn innan flugsamfélagsins á svæðinu. Hann segir vélina hafa verið á 200 kílómetra hraða þegar skrúfan féll af. Hann segist hafa æft áþekkar nauðlendingar og að hann sé alltaf vakandi fyrir mögulegum stöðum til slíkra lendinga þegar hann flýgur.

Hann segir þá sem fylgdust með úr flugstjórnarturninum hafa verið „í meira óðagoti en ég“ þegar hann hafði samband til að láta vita af því að skrúfan væri farin.

Eftir að hafa sagt þeim að hann hygðist lenda flaug Garstad næstum 2,5 kílómetra án skrúfunnar og lenti svo mjúklega á flugvellinum í Sola, nágrannasveitarfélagi Stavanger.

Skrúfan fannst seinna í bænum Tjelta hjá Arnstein Løvbrekke sem sagðist feginn að hún hefði ekki fallið á heimili hans.

„Ég heyrði högg yfir húsinu mínu og ég heyrði að hreyfill hafði stöðvast. Ég sá að skrúfan hafði fallið af vélinni og sá nokkurn veginn hvar hún féll til jarðar. Ég fann hana og að lokum kom lögreglan og tók hana.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert