Fyrrverandi leiðtogi Chad dæmdur í lífstíðarfangelsi

Hissene Habre, fyrrverandi leiðtogi Chad, heilsar stuðningsmönnum er hann yfirgefur …
Hissene Habre, fyrrverandi leiðtogi Chad, heilsar stuðningsmönnum er hann yfirgefur dómsalinn við upphaf réttarhaldanna. AFP

Hissene Habre, fyrrverandi leiðtogi Afríkuríkisins Chad, hefur verið fundinn sekur um glæpi gegn mannkyninu og dæmdur til lífstíðarfangelsisvistar af dómstól í Senegal, en dómurinn yfir Habre þykir marka viss þáttaskil.

Dómarinn dæmdi Habre sekan um nauðgun, kynlífsþrælkun og fyrir að fyrirskipa dráp á árunum 1982–1990, þegar hann var leiðtogi landsins.

Fórnarlömb Habre og fjölskyldur þeirra sem voru drepnir, fögnuðu úrskurðinum. Að sögn fréttavefjar BBC þá er þetta í fyrsta skipti sem dómstóll sem studdur er af Afríska þjóðarbandalaginu dæmir fyrrverandi þjóðarleiðtoga fyrir mannréttindabrot.

„Sögulegur dagur fyrir Chad“

Habre, sem naut mikils stuðnings Bandaríkjastjórnar á meðan hann var við völd, hefur 15 daga til að áfrýja dóminum.

„Þetta er sögulegur dagur fyrir Chad og fyrir Afríku. Þetta er í fyrsta skipti sem afrískur þjóðarleiðtogi hefur verið dæmdur sekur í öðru Afríkuríki,“ hefur BBC eftir Yamasoum Konar, fulltrúa eins hóps fórnarlamba Habre. „Þetta verður lexía fyrir aðra afríska einræðisherra,“ bætti hann við.

Habre var vígreifur eftir að dómurinn féll, reisti hendur á loft og hrópaði: „Niður með frönsku Afríku,“ til stuðningsmanna sinna er hann yfirgaf dómsalinn. Er frasinn meðal þeirra sem notaður hefur verið til að gagnrýna áhrif Frakka í fyrrum nýlendum sínum.  Habre hefur neitað að viðurkenna lögmæti réttarins og olli oft truflunum á réttarhaldinu á þeim níu mánuðum sem dómsmálið var fyrir rétti.  

Kallaður hinn afríski Pinochet

Forsetinn fyrrverandi neitar ásökunum um að hann hafi fyrirskipað dráp 40.000 manna í stjórnartíð sinni.

Gagnrýnendur Habre hafa kallað hann hinn afríska Pinochet, vegna þeirra grimmdarverka sem voru framin í stjórnartíð hans. Þeir sem lifðu af pyntingar sem þeir sættu frá leynilögreglusveitum Habre, hafa greint frá hræðilegum lýsingum á pyntingunum sem þeir sættu.

Dómurinn er talin vera stórt skref fram á við af þeim sem berjast fyrir því að afrískir þjóðarleiðtogar verði dæmdir í Afríku fyrir stríðsglæpi, í stað þess að rétta sé yfir þeim af Stríðsglæpadómstólnum í Haag. Aðrir hafa hins vegar gagnrýnt að dómstóllinn hafi sérstaklega verið settur á fót til að dæma  Habre og hafa þeir bent á að dómstóllinn, sem er að hluta til fjármagnaður af Evrópusambandinu og Bandaríkjunum, sé undir vestrænum áhrifum.

Þau fórnarlömb voðaverkanna sem framin voru í stjórnartíð hans sögðu hins vegar að þeim væri slétt sama um hver hefði fjármagnað dómstólinn, eftir 25 ár þá væru þau bara ánægð með að réttlæti hafi náðst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert